Girðing söguð í sundur við Geysissvæðið

Gjaldtaka hófst á Geysissvæðinu þann 14. mars sl.
Gjaldtaka hófst á Geysissvæðinu þann 14. mars sl. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Mitt starfsfólk varð vitni að þessu og ræddi við hann. Hann er svo sem kurteis maður og hefur sína skoðun. Við teljum það hins vegar skrýtna náttúruvernd að það eigi bara að troða niður, hömlulaust, svona lítil svæði í þágu ferðaþjónustunnar, sem samkvæmt nýjustu fréttum virðist ekki skila neinum sérstökum hagnaði til samfélagsins, þó að menn tali nú drjúgt um slíkt,“ segir Garðar Eiríksson, talsmaður landeigendafélags Geysis.

Rétt fyrir hádegi sagaði maður girðingu í sundur við efra hliðið að Geysissvæðinu. 

Garðar segist ekki átta sig á því hver tilgangurinn sé. „Dómur fellur á mánudag og við bíðum bara eftir því að fá niðurstöðu og við væntum þess að fólk hætti nú að taka lögin í sínar hendur. Þetta er ekki slíkt tilefni.“

Hann segir að almannaréttarsjónarmiðið sem margir beri fyrir sig, sé úrelt miðað við aðstæður í dag.  

„Almannaréttur sem svo er kallaður, frá Jónsbók eða enn lengra síðan, á ekkert skylt við ferðamennsku nútímans þar sem gestir okkar eru orðnir þrefalt fleiri en þjóðin er.“

Ögmundur Jónasson hefur boðað komu sína á Geysissvæðið klukkan 13.30 í dag, líkt og hópurinn Íslenskir náttúruunnendur sem ætlar að mæta til þess að dreifa fríum náttúrupassa til ferðamanna og hvetja þá til þess að greiða ekki aðgangseyri. Hópurinn tengist Ástþóri Magnússyni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert