Óbreytt þjónusta í húsunum

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri í Hafnarfirði. mbl.is/Styrmir Kári

Hafnarfjarðarbær er ekki beinn aðili að málefnum öldrunarmiðstöðvarinnar Hafnar í Hafnarfirði að öðru leyti en því að bærinn á fjórar íbúðir í húsunum auk kjallara. Þetta segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, í samtali við mbl.is. Þá þurfi að hennar sögn að fara fram viðræður um hvort matsalur húsanna sé í eigu bæjarins eða hluti af sameign þeirra.

Eins og greint er frá í Morgunblaðinu í dag eru íbúar hússins harmi slegnir eftir að á daginn kom að þeir þurfi að reiða fram á bilinu eina og hálfa til fjórar milljónir króna á næstu vikum til að geta búið áfram í húsunum vegna rekstrarerfiðleika Byggingarsjóðs Hafnar sem rekið hefur húsin. Það felur einnig í sér að íbúarnir kaupi sameign húsanna. Íbúar húsanna höfðu áður keypt sér íbúðarrétt í þeim en það fyrirkomulag gengur ekki lengur að mati rekstraraðila þeirra.

„Við erum með þjónustu í húsunum og það er alveg á hreinu að bærinn hefur ekki neinar fyrirætlanir um að breyta henni,“ segir Guðrún. Nægar séu áhyggjur íbúanna samt. Þjónustan felist í rekstri á matsal auk þess sem staðið sé fyrir félagsstarfi. „Við höfum ekki hugsað okkur að breyta neinu hvað það varðar.“

Hins vegar þurfi að fara fram viðræður á milli Hafnarfjarðarbæjar og Hafnar um eignarhaldið á matsalnum. „Bærinn á þarna kjallarann og fjórar íbúðir og þá er spurning með þennan matsal,“ segir hún. Eðlilegt væri að hennar mati að taka hann út úr sameigninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert