Fjölmennt á fundi FEB

Nú stendur yfir fjölmennur félagsfundur hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík (FEB) en rætt er um þá ákvörðun stjórnar félagsins að segja framkvæmdastjóranum Sigurði Einarssyni upp störfum frá og með 1. mars síðastliðnum.

Uppsögnin hefur vakið hörð viðbrögð og hafa margir félagsmenn krafist þess að stjórnin færi rök fyrir ákvörðun sinni.

Í lögum félagsins segir að stjórninni sé skylt að halda félagsfund fari þrjátíu félagsmenn fram á það. Í framhaldi af uppsögn Sigurðar Einarssonar rituðu hátt í 300 félagsmenn nöfn sín undir skjal þar sem farið var fram á að slíkur fundur yrði haldinn til að útskýra uppsögnina.

Krafan um félagsfund var afhent stjórn félagsins fyrir fund hennar 11. mars síðastliðinn og var þá farið fram á fund þar sem „ástæður og rök stjórnar fyrir uppsögninni væru skýrð“.

Í fréttatilkynningu til fjölmiðla segir að það hafi ekki verið fyrr en um mánuði síðar að stjórnin varð við kröfunni. Mánudaginn 7. apríl, þ.e. fyrir viku, birtist auglýsing þar sem tilkynnt var um félagsfund til að „kynna áherslubreytingar í rekstri og fjárhagsstöðu“ félagsins.

Mörgum félagsmönnum er heitt í hamsi vegna málsins, en Sigurður hefur starfað hjá félaginu í tæplega átta ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert