SMS-skilaboðum fer fækkandi

ROSLAN RAHMAN

SMS-sendingum fer fækkandi en í fyrra voru sendar 213,9 milljónir slíkra, samanborið við 215,9 milljónir á árinu 2012. Þó hefur slíkum sendingum fjölgað umtalsvert frá því á árinu 2011, þegar þær voru 195,5 milljónir talsins.

Nova ber höfuð og herðar yfir önnur fjarskiptafélög þegar kemur að SMS-sendingum en fram kemur í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunarinnar að markaðshlutdeild félagsins hafi verið 65,3% í fyrra. 

Félagið hefur verið með mestu markaðshlutdeildina á undanförnum þremur árum en hún hefur einmitt farið hækkandi ár frá ári. Árið 2011 nam hún 56,2% og 61,8% árið 2012.

Athygli vekur að Síminn og Vodafone höfðu sömu markaðshlutdeildina í fyrra, eða 15,7%. Árið 2011 var markaðshlutdeild Símans 21% en 19,2% hjá Vodafone. Markaðshlutdeild Tals nam þremur prósentum í fyrra og jókst um 0,8 prósentustig á milli ára, eftir því sem fram kemur í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert