„Þetta var stormur í vatnsglasi“

Setið var í hverju sæti á fundinum í kvöld.
Setið var í hverju sæti á fundinum í kvöld. mbl.is/Ómar

„Þetta var stormur í vatnsglasi,“ segir Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, stjórnarformaður Félags eldri borgara (FEB), í samtali við mbl.is um fjölmennan fund félagsmanna FEB sem haldinn var í kvöld.

„Við auglýstum fund sem um 140 manns af 8.600 félagsmönnum sóttu til að ræða um tiltekna nákvæmlega boðaða dagskrá en hluti fundarmanna vildi fá umræðu eingöngu um uppsögn framkvæmdastjórans sem sagt var upp í sparnaðarskyni,“ segir hún.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í kvöld samþykkti umtalsverður meirihluti fundarmanna að skora á stjórn félagsins að draga uppsögn framkvæmdastjórans, Sigurðar Einarssonar, til baka.

Uppsögnin hefur vakið hörð viðbrögð og var það krafa félagsmanna að stjórn félagsins útskýrði og færði rök fyrir þeirri ákvörðun sinni að segja Sigurði upp störfum.

Uppsagnir stundum óhjákvæmilegar

„Því miður eru uppsagnir stundum óhjákvæmilegar þegar fjárhagurinn þrengist,“ segir Þórunn og bætir við: „Það stendur ekki í lögum nema örfárra stéttarfélaga að tilgreina þurfi ástæður fyrir uppsögn. Þetta var stormur í vatnsglasi.”

Sigurður lagði fyrr í dag fram dagskrártillögu um breytta dagskrá fundarins, sem var samþykkt, en samkvæmt fundarboði stjórnar stóð til að „kynna áherslubreytingar í rekstri og fjárhagsstöðu“ félagsins.

Þórunn segir hins vegar að uppsögnin hefði ávallt komið til umræðu á fundinum, hvort sem dagskrártilllögu stjórnarinnar eða Sigurðar hefði verið fylgt.

Ekki almennur félagsfundur

Hún bendir enn fremur á að um hafi verið að ræða almennan félagsfund. „Svona fundir geta eingöngu vísað málum til stjórnar og þar af leiðandi var þessu máli vísað til stjórnar,“ segir hún og á við tillöguna um hvort afturkalla eigi uppsögn Sigurðar.

Hún nefnir einnig að fundir sem séu boðaðir með því að ganga í hús og biðja fólk um undirskriftir verði með allt öðru yfirbragði. „Það er ekki það sama og venjulegur auglýstur félagsfundur. Þá er annar aðilinn búinn að hóa saman því fólki sem hann telur sér vera hliðhollt í tilteknu máli,“ útskýrir hún.

Óvíst með vantrauststillöguna

Á fundinum var borin upp tillaga um vantraust á stjórnina. Fundarstjóri ákvað hins vegar að leggja hana ekki fram, en hann áleit sem svo að enginn fundarmanna hefði getað vitað að tillagan yrði borin upp á fundinum. Tillagan var þó rædd og sköpuðust um hana heilmiklar umræður.

Aðspurð segist Þórunn ekki eiga von á því að framhald verði á umræðunni um vantrauststillöguna. „Ég hef setið í æði mörgum stjórnum yfir ævina og fáum hef ég setið í þar sem virkni stjórnarmanna er betri. Þetta er ákaflega góð og sterk stjórn.“

Frétt mbl.is: Dragi uppsögnina til baka

Frétt mbl.is: Fjölmennt á fundi FEB

mbl.is/Ómar
Frá fundinum í kvöld.
Frá fundinum í kvöld. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert