Tveggja vikna biðtími á heilsugæslunni

Heilsugæslustöðvarnar eða sjálfstætt starfandi heimilislæknar eiga samkvæmt uppbyggingu kerfisins að …
Heilsugæslustöðvarnar eða sjálfstætt starfandi heimilislæknar eiga samkvæmt uppbyggingu kerfisins að vera fyrsta val sjúklinga sem þurfa hefðbundna læknisaðstoð. mbl.is/Golli

„Satt best að segja vildi ég óska þess að biðin væri ekki meira en tveir til þrír dagar að hámarki. Það er ekki gott að hafa þetta svona,“ segir Þórður G. Ólafsson aðspurður um biðtíma á heilsugæslustöðvum en Þórður er læknir á heilsugæslustöð Efra Breiðholts.

Langir biðtímar á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins hafa nú verið vandamál í ákveðinn tíma eins og mbl.is fjallaði um í gær. Samkvæmt frétt mbl.is skýrist þessi biðtími meðal annars af skorti á heimilislæknum og segir þar Gunnar Ingi Gunnarsson, yfirlæknir á heilsugæslustöð Árbæjar að ástandið hafi líklegast aldrei verið eins slæmt og það er í dag. 

Að sögn Þórðar er ástandið í Efra Breiðholti svipað og í Árbænum en bið eftir tíma hjá lækni þar er oftast um tvær vikur. Býður heilsugæslan þó uppá svokallaða „samdægurstíma“ sem ætlaðir eru fyrir bráðatilvik og er tilvikum forgangsraðað af hjúkrunarfræðingum. Einnig er læknavakt á stöðinni á milli klukkan 16 og 18 virka daga þar sem fólk getur komið inn og hitt lækni.

„Við getum alltaf skoðað bráðveikt fólk samdægurs, bæði þá með þessum samdægurstímum og með vaktinni. Yfirleitt er þó biðin eftir venjulegum tíma um það bil tvær vikur,“

Læknaskortur meginástæðan

Aðspurður um mögulegar ástæður biðtímans segir Þórður að ein meginorsökin sé sú staðreynd að það er skortur á heimilislæknum. „Stór hluti þeirra sem fara erlendis til að læra heimilislækningar koma ekki aftur heim. Einnig hefur stéttin elst undanfarin ár þar sem mörg okkar eru annaðhvort að fara eða farin á eftirlaun. Jafnframt er stór hluti þeirra sem eldri eru í stéttinni farin að minnka við sig og komin í hlutastarf og það dregur vissulega úr mannskapnum,“ segir Þórður.

Segir Þórður jafnframt að þetta ástand ríki á landinu öllu. „Á höfuðborgarsvæðinu er þetta þó misslæmt. Ég er með eina ósetna sérfræðistöðu hér á stöðinni og við teljumst vera tiltölulega vel sett. En ég veit til dæmis að í heilsugæslustöðvunum í  Mjóddinni og Hlíðunum er mjög slæmt ástand þar sem það vantar lækna.“

Margir ekki með sérstakan heimilislækni

Árið 2007 var sett reglugerð þess efnis að allir landsmenn gætu skráð sig á ákveðna heilsugæslustöð. Áður fyrr skráði fólk sig á tiltekinn heimilislækni sem sinnti öllum þeirra málum. 

„Nú er það þó þannig að þegar fólk til dæmis missir sinn lækni eða flytur á milli sveitafélaga skráir það sig einfaldlega á tiltekna heilsugæslustöð. Það fólk á því alveg jafnan rétt eins og aðrir sem skráðir eru með ákveðinn lækni að fá þjónustu. Þá verður náttúrulega  enn erfiðara fyrir fólk að ná í sinn heimilislækni,“ segir Þórður sem telur jafnframt að um 1600 til 1700 manns sé skráð á stöðina sjálfa en ekki með sérstakan heimilislækni. Því vanti í raun heila læknastöðu til viðbótar til að anna þeim hópi.

„Við hér á stöðinni erum skráð fyrir fullt af fólki sem við þurfum að sinna alveg jafnt og hinum. Leiðir það þá til þess að fólkið sem er skráð á sérstakan lækni kemst að miklu seinna,“ bætir Þórður við.

Segir Þórður jafnframt að erfitt sé að finna einhverja eina ákveðna lausn á þessum vanda. „Núverandi heilbrigðisráðherra er þó með góðar áætlanir og vona ég að þær gangi eftir. Hann vill meðal annars að allir Íslendingar hafi aðgang að heimilislækni. Þess er óskandi að það yrði þannig í náinni framtíð.“

Mikill biðtími hefur myndast á heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins undanfarið.
Mikill biðtími hefur myndast á heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins undanfarið. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert