Varað við stormi

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Rax

Veðurstofan varar við stormi, meira en 20 m/s, norðvestantil og á hálendinu fram eftir morgundeginum.

Spáð er sunnan og síðar suðvestan 13-23 m/s með skýrum eða élgjum sunnan- og vestantil á landinu en hægari og þurrt fyrir norðaustanlands. Þá mun lægja smám saman á morgun. Hiti verður á bilinu þrjú til tíu stig að deginum, hlýjast norðaustanlands.

Þá er spáð suðvestan 8-15 m/s á höfuðborgarsvæðinu og skúri eða slydduél. Hiti verður á bilinu fjögur til átta stig.

Hálkublettir á Holtavörðuheiði

Vegir eru nú að mestu greiðfærir á Suðurlandi og Vesturlandi, en þó eru hálkublettir á Holtavörðuheiði, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Á Vestfjörðum er sums staðar krap eða hálkublettir á fjallvegum en ófært er í Árneshrepp á Ströndum.

Þá eru vegir mikið til auðir á Norðurlandi. Krapi er þó á Dettifossvegi en hálkublettir á Hólasandi, Hófaskarði og Hálsum.

Hálkublettir eru á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og eins á Vopnafjarðarheiði.

Á Austurlandi eru sums staðar hálkublettir, svo sem á Jökulsárhlíð, Hróarstunguvegi, Vatnskarði eystra og Breiðdalsheiði. Vegir á Austurlandi eru þó óðum að verða greiðfærir og einnig er greiðfært með suðausturströndinni, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert