Góður gangur í viðræðunum

mbl.is/Ómar

Góður gangur er í kjaraviðræðum Félags háskólakennara og ríkisins, að sögn Jörundar Guðmundssonar, formanns Félags háskólakennara. „Það er góður gangur en þó er ekkert hægt að segja fyrr en á morgun,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann treystir sér ekki til að segja á þessari stundu hvort skrifað verði undir nýjan kjarasamning á morgun, miðvikudag.

Aðspurður segir Jörundur að samkomulag sé í sjónmáli, en „eins og ég hef áður sagt, þá er þetta ekki búið fyrr en það er búið að skrifa undir,“ nefnir hann.

Fundað var í allan dag í húsakynnum ríkissáttasemjara og mun fundurinn líklegast standa fram á kvöld.

Háskólakennarar hafa boðað til verkfalls á lögbundnum prófatíma, dagana 25. apríl til 10. maí næstkomandi, en nú bendir allt til þess að verkfallinu verði afstýrt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert