Grunnskólakennurum miðar áfram

Ekki kæmi til allsherjarverkfalls, að sögn Ólafs.
Ekki kæmi til allsherjarverkfalls, að sögn Ólafs. mbl.is/Kristinn

Samninganefnd Félags grunnskólakennara mun ákveða fyrir páska hvort kosið verði um heimild til verkfallsboðunar. Komi til atkvæðagreiðslu, mun hún fara fram eftir páska.

Að sögn Ólafs Loftssonar, formanns félagsins, kæmi til vinnustöðvunar um miðjan maí, en þá standa yfir próf, vorferðir og önnur hefðbundin dagskrá maímánaðar. Ekki stendur til að boða til allsherjarverkfalls, heldur vinnustöðvunar í nokkra daga, að sögn Ólafs.

 „Það er ómögulegt að segja til um hvaða áhrif verkfall hefði, markmiðið er að minna rækilega á sig, verði ekki búið að semja,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Samninganefnd félagsins fundar í húsnæði ríkissáttasemjara í dag og á morgun. „Eftir langan tíma virðist vera að koma skriður á þetta,“ segir Ólafur.

Aðspurður hvort aðrir samningar sem skrifað hefur verið undir hafi áhrif á kjaradeilu grunnskólakennara segir Ólafur að ákveðnum óvissuþáttum hafi verið eytt þegar Félag framhaldsskólakennara og Félag stjórnenda í framhaldsskólum sömdu við ríkið og BHM við sveitarfélögin. „Við vitum hvert við eigum að horfa,“ segir Ólafur. 

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara.
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert