Heimsækja afskekktasta þorp Grænlands

Liðsmenn Hróksins halda í dag til Ittoqqortoormiit, sem er afskekktasta þorp Grænlands, á 72° gráðu, þúsund kílómetra frá næsta byggða bóli. Um páskana verður skákhátíð haldin í bænum, áttunda árið í röð. Þetta er annað verkefni á 12. starfsári Hróksins á Grænlandi, en alls hafa liðsmenn félagsins farið meira en 30 ferðir til Grænlands að útbreiða skák og efla vináttu nágrannaþjóðanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hróknum. 

„Ittoqqortoormiit skipar sérstakan sess í hjörtum Hróksmanna eftir áralangt starf og þar eiga liðsmenn félagsins mörgum vinum að fagna. Á næstu dögum verður efnt til fjöltefla og skákmóta fyrir börn og fullorðna og á mánudag verður ,,Dagur vináttu Grænlands og Íslands" haldinn hátíðlegur.

Í þorpinu eru um 450 íbúar, og er búið að skapa ríka skákhefð í þessum fræga veiðimannabæ, þar sem ísbirnir eru iðulega á vappi. Hróksmenn fara klyfjaðir páskaeggjum, vinningum, verðlaunum og öðrum gjöfum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Meðal bakhjarla ferðarinnar eru Aurelia velgerðarsjóður, Norlandair, Bónus, Gekon, Nýherji, 66° Norður, Hafnarfjarðarhafnir, Zo-on og Ísspor.

Hróksliðar munu heimsækja barnaheimili, sjúkrastofnun og dvalarheimili aldraðra, en höfuðstöðvar hátíðarinnar verða í grunnskóla bæjarins. Þar mun Róbert Lagerman skákmeistari og varaforseti Hróksins tefla fjöltefli á skírdag, og á föstudag verður páskaeggjamót þar sem öll börn í bænum fá páskaegg frá Bónus. Á laugardag er komið að Norlandair-mótinu fyrir börn og fullorðna og á mánudag verður ,,Dagur vináttu Íslands og Grænlands" haldinn,“ segir í tilkynningu. 

Ittoqqortoormiit.
Ittoqqortoormiit.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert