Enn hækkar meðalaldur kennara

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Meðalaldur starfsfólks við kennslu í grunnskólum hefur farið hækkandi frá árinu 2000. Árið 1998 var meðalaldur starfsfólks við kennslu 41,7 ár en var kominn í 46,0 ár haustið 2013. Á þessu tímabili hefur meðalaldur kvenkennara hækkað meira eða úr 41,2 árum í 46,1 ár. Meðalaldur karlkennara hefur hækkað úr 43,2 árum í 45,4 ár. Meðalaldur kennara án réttinda er töluvert lægri en réttindakennara og hefur svo verið á öllu tímabilinu. Haustið 2013 var meðalaldur kennara með réttindi 46,2 ár en meðalaldur kennara án réttinda 39,4 ár. 

Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofu Íslands.

Mikil fjölgun starfsfólks við stuðning frá 1998

Sé litið 15 ár aftur í tímann hafa fremur litlar breytingar orðið á fjölda kennara en þeim hefur fjölgað um 6,3%. Ef sérkennarar eru taldir með hefur kennurum og sérkennurum fjölgað um 14,7% á þessum 15 árum. Hins vegar hefur ýmsum stuðningsaðilum nemenda fjölgað verulega. Þroskaþjálfum hefur fjölgað hlutfallslega mest, eða um 383%, og stuðningsfulltrúum hefur fjölgað um 215%. Þegar allir starfsmenn grunnskóla eru taldir hefur starfsmönnum fjölgað um 22,7% frá hausti 1998.

Nemendum í grunnskólum fjölgar á ný

Nemendur í grunnskólum á Íslandi voru 42.734 haustið 2013. Nemendum fjölgaði um 414 (1,0%) frá fyrra ári eftir að hafa fækkað jafnt og þétt frá árinu 2003, þegar þeir voru 44.809. Auk þess stunduðu 111 börn nám í 5 ára bekk.

Grunnskólanemendum með erlent ríkisfang og erlent móðurmál fer fjölgandi

Frá haustinu 2006 hefur nemendum með erlent ríkisfang fjölgað um 518 og voru 1.498 talsins haustið 2013. Haustið 2006 voru þessir nemendur 2,2% af grunnskólanemendum en voru orðnir 3,5% nemenda haustið 2013, og hafa aldrei verið fleiri. Fjölmennastir voru nemendur með pólskt ríkisfang (811) og nemendur frá Litháen (137). 

Nemendum sem skráðir eru með erlent tungumál að móðurmáli hefur að sama skapi fjölgað ár frá ári frá því að Hagstofan hóf að safna inn þeim upplýsingum. Haustið 2013 höfðu 2.775 grunnskólanemendur erlent tungumál að móðurmáli, eða 6,5%, og er það fjölgun um 0,2 prósentustig frá fyrra ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert