SAF fagna lögbannsúrskurði

Geysir í Haukadal.
Geysir í Haukadal. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) fagna niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands frá því í gær þess efnis að sýslumanninum á Selfossi beri að framfylgja lögbannskröfu fjármálaráðuneytisins á ólöglega gjaldtöku Landeigendafélags Geysis við náttúruperlurnar í Haukadal.

SAF taka undir kröfur Landeigendafélags Geysis um að ekki sé hægt að bíða lengur með uppbyggingu á svæðinu, enda eru hverirnir við Geysi í Haukadal einir af helstu hornsteinum íslenskrar ferðaþjónustu. Á fjölmennum aðalfundi samtakanna á dögunum tilkynnti iðnaðar- og viðskiptaráðherra að nú þegar ætti að setja fjármuni til uppbyggingar á þeim ferðamannastöðum þar sem þörfin er mest.

„SAF hefur ávallt lagt mikla áherslu á að horft sé til heildstæðra lausna hvað varðar gjaldtöku til uppbyggingar á fjölsóttum ferðamannastöðum, fremur en staðbundinna. Þannig eru heildarhagsmunir stærstu og mest vaxandi atvinnugreinar landsins best tryggðir,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert