Skólagarðar Reykjavíkur ekki endurvaktir

Skólagarðarnir nutu jafnan mikilla vinsælda og komust færri að en …
Skólagarðarnir nutu jafnan mikilla vinsælda og komust færri að en vildu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tillaga um að endurvekja starfsemi Skólagarða Reykjavíkur var felld í borgarstjórn í dag. Starfsemi þeirra var hætt árið 2011 í sparnaðarskyni.

Það voru borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem lögðu fram þá tillögu að Skólagarðarnir yrðu opnaðir aftur í sumar og nemendum á grunnskólaaldri gefinn kostur á að sækja þar námskeið í ræktun matjurta og fræðslu um garðrækt yfir sumartímann. Jafnframt var lagt til að eldri borgarar ættu þess kost að nýta garðana, eins og áður var, ef rými leyfi.

Borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingar og Vinstri grænna greiddu atkvæði á móti tillögunni og var hún felld.

Í yfirlýsingu frá Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórn er haft eftir Mörtu Guðjónsdóttur, varaborgarfulltrúa, að starfsemi Skólagarðanna hafi verið mikilvæg fyrir grunnskólabörn, til að vekja áhuga nemenda á matjurtaræktun.

Það gera sér allir grein fyrir því að nám og fræðsla kostar peninga og við eigum að forgangsraða í þágu fræðslu og menntunar barnanna í borginni en ekki í þágu gæluverkefna sem kosta margfalt meira en rekstur Skólagarðanna.“ sagði Marta í ræðu sinni í borgarstjórn í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert