„Það eru ekki til gafflar og diskar“

Kjarasamningur leikskólakennara verður að óbreyttu laus 1. maí næstkomandi.
Kjarasamningur leikskólakennara verður að óbreyttu laus 1. maí næstkomandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bergljót Hreinsdóttir er deildarstjóri á leikskólanum Marbakka í Kópavogi. Hún útskrifaðist frá Fósturskóla Íslands 1991 en hefur unnið á leikskólum í nærri þrjátíu ár og man tímana tvenna. Í byrjun desember í fyrra sendi hún Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogsbæjar, bréf þar sem hún útlistar áhyggjur sínar af álaginu á leikskólakennurum og ástandinu í leikskólunum, og bendir m.a. á að meðalaldur faglærðra starfsmanna Marbakka er 57,5 ár.

„Þetta var uppsöfnuð þreyta bara. Vonleysi, einhvern veginn,“ segir hún um tilurð bréfsins. „Maður er búinn að reyna að tala um hlutina við yfirmennina og það er náttúrlega ekkert sem þær geta gert í raun og veru. Þær segja: Svona er þetta bara. En ég er ekki sátt við það svar. Ef við höldum áfram að hugsa þannig þá gerist ekkert. Og ef maður talar ekki um hlutina þá gerist ekkert,“ segir Bergljót.

Hún segir vandamálin af ýmsum toga en flest megi rekja til fjárskorts. Á deildinni hennar, Bóli, dvelja 20 börn á aldrinum tveggja til þriggja ára í umsjá sex starfsmanna; tveir eru faglærðir, einn hefur starfað á deildinni í sjö ár en þrír hafa minni starfsreynslu. Bergljót segir veikindi starfsmanna tíð og nefnir sem dæmi að fyrstu 63 daga ársins hafi verið undirmannað 30 daga. Hún segir muna um hvern starfsmann.

„Þú tekur alltaf á móti sama barnafjöldanum og starfið heldur áfram, það er alveg sama hvort það eru þrír eða fimm mættir. Svo kemur þetta alltaf niður á fagstarfinu og það er oft sem við sleppum kaffi- og undirbúningstímum því við sjáum ekki fyrir okkur hvernig þetta á að ganga öðruvísi,“ segir Bergljót en manneklan komi einnig niður á sérkennslunni.

Langt nám, rýr laun

Bergljót segir starfsmannaveltuna mikla, tíma sé varið í að þjálfa nýtt fólk sem stoppar stutt við, enda virðast fáir vilja leggja leikskólakennslu fyrir sig. Launin séu ekki í neinu samræmi við lengd námsins. Hún segir álagið mikið og er uggandi um eigin heilsu en hún segir starfsfólk leikskólanna eiga það sammerkt að stríða við slit í baki og hnjám. Sem dæmi um áreynsluna nefnir hún aðbúnaðinn á yngstu deildunum, þar sem ætlunin var að taka á móti börnum 12-18 mánaða.

„Árgangarnir hafa verið svo stórir að þessi yngstu börn komast ekki inn en við erum samt með barnastólana. Allur búnaðurinn er hugsaður fyrir þennan aldur þannig að við erum að lyfta þriggja til þriggja og hálfs árs börnum upp í ungbarnastóla. Við höfum enga aðra stóla. Við látum þau borða úr skálum með skeiðum því það eru ekki til gafflar og diskar. Sem er auðvitað bara vegna fjársveltis leikskólans,“ segir hún.

„Þetta er ekki gæsla“

Bergljót segist þrátt fyrir allt enn hafa mikla ástríðu fyrir starfinu. „Ég er ekki að fara að hætta. Þetta er alveg besta starf í heimi og ég vil að það komi skýrt fram,“ segir hún. Hún hefur ekki fengið svar við bréfinu frá bæjarstjóranum en segir það hafa vakið mikla athygli eftir að hún birti það á Facebook. Í kjölfarið hafi hún fengið fjölda tölvupósta og hringinga alls staðar að á landinu.

Hún segir grundvallaratriði að launamálunum verði komið í horf og leikskólakennarar fái umbun fyrir störf sín „Það sem leikskólakennarar þurfa að gera er að stíga fram og til að ávinna okkur einhverja virðingu í þjóðfélaginu þurfum við líka að vera sýnilegri. Hvað er þetta sem við erum að gera? Þetta er ekki gæsla, þetta er ekki að passa börn átta tíma á dag. Við þurfum að vera svolítið stolt af starfinu okkar og bara sýna okkur,“ segir hún.

Bergljót segir að menntamálin séu annað sem þarf að skoða en margir láti fimm ára háskólanám vaxa sér í augum. Þá mætti bæta skipulagið á leikskólunum, t.d. fækka börnum á deildum. Fyrst og fremst þurfi að koma á stöðugleika. „Um leið og það er kominn á stöðugleiki fer starfið að blómstra,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert