Allir geislafræðingarnir sögðu upp

Allir geislafræðingar sem starfa hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) hafa sagt upp störfum þar sem ekki hefur tekist að ganga frá stofnanasamningi. Alls er um þrjá starfsmenn að ræða sem afhentu sín uppsagnarbréf í lok mars. 

Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags geislafræðinga, segir í samtali við mbl.is að HSA geti ekki boðið upp á kjör sem geislafræðingarnir geti unað við.

Stofnanasamningurinn var síðast endurnýjaður árið 2006. Formlegar samningaviðræður milli geislafræðinganna og stjórnenda HSA hófust í byrjun þessa árs. Síðasti fundur var haldinn í lok mars og í framhaldinu ákváðu starfsmennirnir að segja upp. Uppsagnarfrestur eins þeirra rennur út í lok apríl en hjá hinum tveim í lok júní. 

„Fólk er orðið dálítið langþreytt. Öðrum bjóðast betri kjör annars staðar - eru með það í hendi,“ segir Katrín. 

Aðspurð segir hún að stjórnendur HSA hafi komið þeim skilaboðum til starfsmannanna að ekki sé hægt að koma til móts við þeirra kröfur. 

Staðan áhyggjuefni

Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA, sem er í forsvari í fjarveru forstjóra stofnunarinnar, segir í samtali við mbl.is að þetta sé fámenn en mikilvæg stétt hjá stofnuninni. „Það er áhyggjuefni að staðan er svona. Varðandi framhaldið þá vona ég ennþá að við finnum í sameiningu á þessu einhvern þann flöt sem má verða lausn í málinu,“ segir Pétur.

Spurð nánar út í stofnanasamninginn segir Katrín að hann snúist um hækkun á grunnlaunum. „Það er sama með geislafræðinga allsstaðar að það er gríðarlegt vinnuálag hjá flestum. Sérstaklega hjá þeim úti á landi sem eru með gríðarlega mikið af bakvöktum, sem er mjög íþyngjandi til lengdar.“

Katrín bendir á að geislafræðingunum hjá HSA þyki þeirra kjör vera lakari miðað við kjör starfssystkina sinna á Landspítalanum.

Ekkert samræmi á milli launa og vinnuálags

Þá tekur Katrín fram, að það sé mjög erfitt að vera bundinn við mikla yfirvinnu og vera ávallt á bakvakt. Geislafræðingarnir séu með lág grunnlaun en fái hins vegar ágætlega útborgað í hverjum mánuði. „En það eru alveg ómældir tímar sem liggja þar að baki. Að vera á bakvakt heima hjá sér með smábarn og annað; þú ert alltaf með einhvern annan til að taka yfir [heimilið] ef þú ferð í útkall. Þannig að þetta er rosaleg hefting,“ segir hún og bætir við að tveir geislafræðinganna hafi skipt með sér vöktun ársins á HSA. Því fylgi gríðarlega mikið álag og séu engan veginn í takti við það.

Pétur segir að geislafræðingarnir sem hafa sagt upp störfum sé gott starfsfólk og hann bindur vonir við að málið leysist áður en uppsagnirnar taka gildi. Engar viðræður hafa átt sér stað á milli stjórnenda HSA og geislafræðinganna í þessum mánuði að sögn Péturs verður farið yfir stöðuna eftir páska. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert