Er þetta „dæmigert páskahret“?

Hvít jörð blasti við höfuðborgarbúum í morgunsárið.
Hvít jörð blasti við höfuðborgarbúum í morgunsárið. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hvít jörð blasti við höfuðborgarbúum í morgunsárið á sextánda degi aprílmánaðar og víða er vetrarfærð á vegum landsins. Nú er dymbilvika og páskarnir framundan og hafa margir gripið til orðsins páskahret og segja veðrið dæmigert fyrir páskahátíðina.

Fyrir nokkrum árum vildi áhugasamur notandi Vísindavefsins vita hvort óveður séu algeng um páska, þ.e. páskahret.Í svari við spurningunni segir að hret séu algeng síðla vetrar og á vorin, en þau lendi ekkert frekar á páskum en á öðrum dögum á tímabilinu.

Páskunum fylgir háls mánaðar gluggi hretamöguleika

„Þar sem páskar falla á mismunandi tíma á ári hverju er hægt að tengja veðuratburði á nokkuð löngum tíma við þá. Af umræðu síðustu 40 til 50 ára er greinilegt að veðuratburðir á nokkuð víðu tímabili hvers árs geta orðið að páskahreti í umræðunni. Geri ekki hret um páskana sjálfa eða á bænadögunum eru hret, sem verða á öðrum dögum frá pálmasunnudegi til sunnudags eftir páska, oftast kölluð páskahretið. Þetta þýðir að páskunum fylgir hálfs mánaðar gluggi hretamöguleika,“ segir í svarinu.

Bent er á að veður á Íslandi séu oftast fremur óstöðug, hér skiptist á norðlægar hátti með kulda og suðlægar með hlýinfum. Oftast geri nokkuð snarpa norðanátt einhvern tíma á þeim hálfa mánuði sem fylgir páskunum, en það gerir það líka á öðrum hálfum mánuðum á vorin. Á fyrri tíð voru vorhretin gjarnan talin fimm til sjö og páskahretið eitt þeirra. Ekki skiluðu öll hretin sér á hverju ári.

Þrjú páskahret skera sig úr

„Þegar litið er á vetrarveðurlag á Íslandi til langs tíma kemur í ljós að það skiptast á nokkur tímabil, ekki öll jafnljós. Tímabil sunnan- og vestanveðra stendur til dæmis frá því fyrir jól og fram undir miðjan mars og nær hámarki um miðjan febrúar. Tíðni norðanveðra er flatari, tíðnin vex mjög á haustin, en síðan er hún svipuð fram í febrúarlok, en fellur ekki jafnhratt á vorin og tíðni sunnan- og vestanveðranna.

Þó heildartíðni allra gerða af ofviðrum falli mjög hratt eftir 10. mars og fram á sumar fellur tíðni norðanáttanna hægar en annarra veðra. Illviðri sem gerir á þeim tíma er því líklegra til að vera kaldur norðanbylur en tiltölulega hlý sunnan- eða vestanátt. Hretin á þessum árstíma verða því sérstaklega áberandi í hugum manna.

Páskahret í hálfsmánaðarglugganum eru því algeng, en það er ekki oft sem þau valda verulegu tjóni eða samgöngutruflunum. Á síðustu 50 árum hefur það þó gerst nokkrum sinnum. Þrjú páskahret skera sig nokkuð úr á því tímabili og eru verri en önnur. Það eru hretin 1963, 1967 og 1996. Af eldri hretum má nefna 1917 en það minnti mjög á illviðrið 1963,“ segir í svari Vísindavefsins. 

Svar Vísindavefsins

Hret eru algeng síðla vetrar og á vorin hér á …
Hret eru algeng síðla vetrar og á vorin hér á landi. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert