Fyrsta doktorsritgerðin fjallar um fjötra feðraveldisins

Hoda Thabet fyrir miðri mynd ásamt andmælendum.
Hoda Thabet fyrir miðri mynd ásamt andmælendum.

Hoda Thabet hefur varið fyrstu doktorsritgerðina í almennri bókmenntafræði við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Women in Transition (Konur á tímamótum) og fjallar um arabískar kvennabókmenntir og þátt þeirra í að brjóta af sér fjötra feðraveldisins í heimi sem þar sem konur eru ekki aðeins kúgaðar af körlum heldur verða einnig að takast á við styrjaldir og afleiðingar þeirra.

Bókmenntafræðilega snýst kenning hennar um nýstárlega beitingu hins háleita (,,the sublime“) í arabískum kvennabókmenntum á síðari hluta tuttugustu aldar, einkum í skáldverkum Hanan al-Sjaík (e. Hanan al-Shaykh), Naúal El-Saddaúí (e. Nawal El-Saddawi) og Gada Samman (e. Ghada Samman). Hoda kannar hvernig höfundarnir snúa hinum hefðbundnu hugmyndum um hið háleita á hvolf og ögra þannig aldagamalli túlkun feðraveldisins.

Hoda Thabet fæddist á Indlandi, en er af írönskum uppruna. Hún skrifaði reglulegan dálk fyrir dagblað í Óman á tíunda áratugnum og hefur einnig birt greinar um kvenrithöfunda í blöðum í Jemen. Hún lauk BA prófi í arabísku og arabískum bókmenntum frá Jórdaníuháskóla og MA prófi frá School of Oriental and African Studies við Lundúnaháskóla. Hún hefur kennt námskeið í arabískum bókmenntum við Háskóla Íslands. Hún samdi ritgerðina á ensku, en hún talar einnig og skrifar arabísku reiprennandi. Það má teljast óvenjulegt að doktorsritgerð um slíkt efni sé skrifuð við Háskóla Íslands.

Andmælendur við doktorsvörnina voru tveir af þekktustu sérfræðingum heims í arabískum kvennabókmenntum, þær Miriam Cooke, prófessor í arabískri menningu við Duke-háskólann í Bandaríkjunum, og Marilyn Booth, prófessor í arabískum og íslömskum fræðum við Edinborgarháskóla.

Sjá nánar hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert