Kjósa um verkfallsaðgerðir

mbl.is/Kristinn

Samninganefnd Félags grunnskólakennara (FG) hefur falið kjörstjórn Kennarasambands Íslands að framkvæma allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsmanna Kennarasambands Íslands í FG, sem starfa hjá sveitarfélögum landsins, um vinnustöðvun dagana 15., 21. og 27. maí 2014.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Kjörstjórn hefur ákveðið, samkvæmt tillögu FG, að atkvæðagreiðslan fari fram með rafrænum hætti og hefjist þriðjudaginn 22. apríl 2014, kl. 10.00 og ljúki mánudaginn 28. apríl 2014, kl. 16.00.

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, sagði við mbl.is í dag að kjaraviðræður félagsins við samninganefnd ríkisins þokuðust hægt og örugglega áfram. 

„Það þarf að ná öllum endum saman og vinna í ákveðnum málum sem þokast áfram en við erum ekki enn farin að sjá fyrir endann á þessu,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert