Kostnaðurinn rúmlega tvöfaldaðist

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Heildarkostnaður vegna byggingar nýs safnahúss fyrir Lækningaminjasafn Íslands á Seltjarnarnesi var talinn vera um 700 milljónir króna í lok árs 2012 en þá hafði húsnæðið ekki enn verið tekið í notkun og einungis verið uppsteypt, þak komið og það glerjað. Upphaflega var hins vegar gert ráð fyrir því að heildarkostnaðurinn yrði 345 milljónir þegar samið var um byggingu og rekstur safnhússins árið 2007. Framkvæmdir við húsnæðið hófst síðan haustið 2008.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu embættis Ríkisendurskoðunar til Alþingis um Lækningaminjasafn Íslanda. Samningurinn var undirritaður af þáverandi menntamálaráðherra, bæjarstjóra Seltjarnarness og fulltrúum Læknafélags Íslands, Læknafélags Reykjavíkur og Þjóðminjasafns Íslands. Um miðjan desember sagði Seltjarnarnesbær sig frá samningnum á þeim forsendum að ekki hafi nást samkomulag við mennta- og menningarmálaráðuneytið um endurskoðun hans og aukin framlög frá ríkinu til uppbyggingar og reksturs safnsins.

„Jafnframt felldi bæjarstjórn úr gildi stofnskrá safnsins, lagði það niður og afhenti Þjóðminjasafni þá muni sem það hafði varðveitt og það húsnæði sem það hafði haft til afnota. Ástæða þessa var það mat bæjarstjórnar að forsendur samningsins væru brostnar, einkum vegna þess að kostnaður við byggingu safnhúss hefði farið langt fram úr áætlun. Jafnframt taldi bæjarfélagið að rekstrarkostnaður safnsins hefði verið vanáætlaður í upphafi og að hlutdeild sín í honum væri of mikil,“ segir í skýrslunni.

Ríkisendurskoðun kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ríkissjóður og læknafélögin hafi staðið við sinn hluta samnings. Þau telji sér ennfremur hvorki fært né skylt að auka framlög sín vegna byggingar Lækningaminjasafnsins og reksturs þess. Sama eigi við um endurskoðun samningsins með öðrum hætti vegna áðurnefnds forsendubrests. „Upphaflegar hugmyndir um rekstur Lækningaminjasafns Íslands virðast því úr sögunni,“ segir ennfremur í skýrslunni.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert