Páskaumferðin farin rólega af stað

Umferð á Suðurlandsvegi um kvöldmatarleytið.
Umferð á Suðurlandsvegi um kvöldmatarleytið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Talsverð umferð var út úr bænum síðdegis í dag og líklega einhverjir þegar lagðir af stað í ferðalag í tilefni páska. Gott er að hafa í huga að hálkublettir eru sumstaðar á vegum og aldrei of varlega farið.

Sem stendur viðrar ágætlega til ferðalaga, en varað er við stormi seint á morgun á Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra.

Grunn lægðarmiðja er nú yfir landinu vestanverðu og er hún á austurleið, samkvæmt veðurfræðingi Vegagerðarinnar. Í kringum lægðina er éljaloft og bakki með samfelldri úrkomu sunnanlands. Í kjölfar lægðarinnar kemur hæðarhryggur með þurru, en köldu lofti. Vaxandi lægð á Grænlandshafi á morgun og slydda og snjókoma frá skilum hennar vestanlands um og upp úr miðjum degi.

Hálka getur leynst á vegum

Hálkublettir eru á fáeinum vegum í uppsveitum á Suðurlandi. Hálkublettir eru á þjóðveginum frá Þjórsá að Steinum.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er mikið orðið autt á láglendi en víða er nokkur hálka á fjallvegum. Hálkublettir og éljagangur er á Holtavörðuheiði. Snjóþekja eða hálkublettir eru nokkuð víða í uppsveitum Borgarfjarðar. Snjóþekja er norður í Árneshrepp.

Það er víðast orðið autt á Norðurlandi en þó eru hálkublettir á Öxnadalsheiði, Þverárfjalli og á Siglufjarðarvegi.

Hálkublettir eru á Mývatns- og Mörðudalsöræfum en vegir á Austurlandi eru annars greiðfærir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert