Réðist á mann og hótaði lögreglu

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt 19 ára karlmann í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás og brot gegn valdstjórninni. Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða 340.000 kr. í bætur fyrir fjártjón og miska og um 244.000 kr. í sakar- og málskostnað.

Lögreglustjórinn á Akureyri ákærði manninn í lok janúar fyrir líkamsárás sem var framin 15. maí 2013 fyrir utan skemmtistað í bænum. Maðurinn var sakaður um að hafa ráðist á annan mann, fellt hann og slegið hann margítrekað með hnefum, olnbogum og hnjám. Hann var einnig sakaður um að hafa reynt að pota í augu mannsins sem hlaut áverka í andliti, hægri hendi og vinstri öxl. 

Maðurinn sem varð fyrir árásinni gerði bótakröfu upp á 1,1 milljón kr. í málinu.

Þann 5. mars sl. ákærði ríkissaksóknari manninn fyrir brot gegn valdstjórninni sem voru framin 19. maí 2013. Manninum var gert að sök að hafa hótað lögreglumönnum, sem voru við skyldustörf, lífláti og líkamsmeiðingum. Þá sparkaði maðurinn í hné annars lögreglumannsins. Maðurinn af handtekinn og færður í fangaklefa en þar hótaði hann þriðja lögreglumanninum lífláti. Þá hrækti hann á fangavörð í gegnum lúgu á hurð fangelsisins. 

Ungi maðurinn játaði sök fyrir dómi. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms að hann hafi áður sætt refsingum. Árið 2012 þurfti hann að greiða sekt fyrir fíkniefnaakstur. Þá var hann í nóvember sama ár dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir minni háttar líkamsárás.  

Dómarinn segir að fyrri refsingar hafi ekki áhrif í þessu máli þar sem maðurinn var ekki orðinn 18 ára er hann framdi brotin.

Héraðsdómur segir í þessu máli hafi maðurinn gerst sekur um alvarleg brot. Tekið er fram að ölæði hans hafi ekki áhrif til refsimildunar. Til þess var hins vegar litið að maðurinn játaði skýlaust sakargiftir fyrir dómi og lýsti þá jafnframt yfir iðran vegna gjörða sinna. Þá samþykkti hann að greiða skaðabætur til brotaþolans að hluta. Að þessu virtu en einnig með hliðsjón af ungum aldri þótti refsing hans hæfilega ákveðin fimm mánaða fangelsi skilorðsbundið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert