Telja skóla landsins bregðast skyldum sínum

Frá Kvennafrídeginum 24. október 1975,
Frá Kvennafrídeginum 24. október 1975, Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon

Landssamband femínistafélaga framhaldsskólanna og Kvenréttindafélag Íslands skora á skólayfirvöld að gera kynjafræði að skylduáfanga í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Ályktun þess efnis var samþykkt í gær þar sem m.a. er bent á að í jafnréttislögum hafi frá árinu 1976 staðið að jafnréttisfræðsla skuli vera á öllum skólastigum. Samskonar ákvæði er að finna í núgildandi löggjöf, frá 2008.

Í nýrri aðalámskrá, sem samþykkt var 2011, segir sömuleiðis skýrt að á öllum skólastigum eigi að fara fram menntun til jafnréttis, þar sem börnum og ungmennum sé kennd gagnrýn hugsun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og að greina þær aðstæður sem leiða til mismuninar sumra og forréttinda annarra.

Þrátt fyrir þessar nýju aðalnámsskrár er ekki hægt að sjá að kennslu hafi verið breytt að ráði til að sinna þessum kröfum um kennslu til jafnréttis,“ segir í ályktun femínistafélaga framhaldsskólanna og Kvenréttindafélags Ísland.

Félögin telja að skólar landsins séu að bregðast skyldum sínum við komandi kynslóðir að hafa ekki lagt meiri áherslu á jafnréttisfræðslu meðal ungs fólks en raun ber vitni. Kynjafræði er nú kennd sem valáfangi í 17 framhaldsskólum á landinu og hefur það m.a. leitt til þess að í 10 framhaldsskólum hafa nemendur tekið sig saman og stofnað eigin félagasamtök til að berjast fyrir jafnrétti kynjanna.

Landssamband femínistafélaga framhaldsskólanna og Kvenréttindafélag Íslands hvetja yfirvöld menntamála í landinu, bæði ríki og sveitarfélög, til að leita leiða til að kenna jafnrétti og kynjafræði á öllum skólastigum.

„Með samstilltu átaki getum við breytt heiminum,“ segir í ályktun félaganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert