Teygði sinn inn um glugga og stal kvenfatnaði

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst snemma í morgun tilkynning um innbrot í fataverslun við Suðurlandsbraut. Lögreglan segir að svo virðist sem að þjófur hafi náð að spenna upp hálfopinn glugga og teygja sinn inn. Þannig tókst honum að næla sér í nokkrar flíkur.

Að sögn lögreglu er um kvenfatnað að ræða og er talið líklegt að þjófurinn hafi notað einhverskonar skaft til að ná fötunum því hann fór ekki inn í húsnæðið. 

Tilkynning barst um klukkan fimm í morgun og fóru lögreglumenn á staðinn. Þeir náðu að rekja spor í snjónum en þau hurfu við nálæg gatnamót. Þjófurinn gengur því enn laus.

„Það er einhver búinn að fata sig upp fyrir páskana,“ segir varðstjóri í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert