„Þungu fargi af stúdentum létt“

María Rut Kristinsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
María Rut Kristinsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands. mbl.is/Rax

„Það er þungu fargi af stúdentum létt,“ segir María Rut Kristinsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is. „Við erum mjög hamingjusöm með það að óvissunni skuli hafa verið eytt,“ segir hún jafnframt spurð um fyrstu viðbrögð við tíðindum dagsins.

Skrifað var undir nýjan kjarasamning Félags háskólakennara og ríkisins í dag. Háskólakennarar fá 2,8% launahækkun í miðlægum kjarasamningi, ásamt því sem Háskóli Íslands hyggst koma til móts við kröfur kennara um ýmis atriði sem varða starfsumhverfi þeirra. 

Um er að ræða aðfarasamninga að lengri kjarasamningum á næsta ári.

Boðuðu verkfalli á prófatíma dagana 25. apríl til 10. maí næstkomandi hefur því verið frestað.

Ánægðir og hamingjusamir stúdentar

„Stúdentar hafa nú þurft að lifa við hræðilega óvissu í fjórar vikur,“ nefnir María Rut og bendir á að óvissan hafi nagað marga hverja „algjörlega inn að beini. Stúdentar eru mjög ánægðir með að verkfallinu hafi verið frestað og að þeir geti nú hafið prófalestur óáreittir.“

Nú þegar skrifað hefur verið undir kjarasamninginn liggur fyrir að prófin munu hefjast þann 25. apríl næstkomandi, eins og ávallt hafi staðið til.

„Það er gott að hafa þessa vissu á hreinu þannig að stúdentar geti undirbúið sig sem skyldi,“ segir María Rut.

Einbeita sér nú að prófalestrinum

Aðspurð segir hún að reiðin meðal stúdenta hafi magnast á seinustu dögum. „Maður var farinn að finna fyrir mjög miklum titringi og margir stúdentar voru jafnvel farnir að missa vonina á að ná að klára önnina. Sumir voru meira að segja búnir að sætta sig við að önnin væri bara ónýt,“ segir hún og bætir við:

„Það er þá gott að nú sé hægt að anda léttar og einblína á sjálfan prófalesturinn. Og að stúdentar geti síðan gert það sem þeir ætluðu hvort sem er að gera eftir 10. maí.

Þannig að öll plön standast. Það skiptir líka máli.“

María Rut segist einnig hafa frétt af því að mörgum skiptinemum og erlendum nemum sé nú létt. „Þeir áttu allir bókuð flug heim, búnir að greiða fargjaldið og svo framvegis. En eins og ég segi: Það er þungu fargi af okkur létt.“

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert