Torgsala á Bernhöftstorfu

Grænmetismarkaður á Lækjartorgi.
Grænmetismarkaður á Lækjartorgi. Styrmir Kári

Í reglum um götu- og torgsölu í Reykjavík sem samþykktar voru fyrr í þessum mánuði eru nýir sölustaðir kynntir til sögunnar. Bernhöftstorfa bætist við þá staði sem ætlaðir eru fyrir svokallaða markaðssölu, en á þeim svæðum er heimilt að selja ávexti, grænmeti, blóm, ýmis handverk og smávöru.

Þetta kemur fram í frétt frá Reykjavíkurborg.

Markaðssalan er hugsuð fyrir einyrkja og geta þeir fengið leyfi til eins, tveggja eða þriggja mánaða fyrir sína söluaðstöðu. Í fyrra voru um 20 aðilar með slík leyfi og geta þeir flutt sig milli markaðssvæða að vild. Auk svæðisins við Bernhöftstorfu geta þeir selt varning sinn á Ingólfstorgi og á bílastæði við Geirsgötu 13, sem einnig er nýr staður. Sala er heimiluð á tímanum 9 – 21 og gerð er krafa um að útlit söluaðstöðu fari vel í umhverfinu og að efnisnotkun, ásýnd og yfirbragð sé vandað, eins og segir í reglunum. Söluleyfi fyrir markaðssölu kostar 20 þúsund krónur á mánuði.

Í sátt við umhverfið

Götu- og torgsölu er ætlað að glæða borgina lífi og auka við fjölbreytni í starfsemi og þjónustu í miðborginni. Hún á að vera hluti af því að gera borgina áhugaverðari og  litríkari, eins og segir í nýju reglunum.  Þeim er ætlað að tryggja að vel sé að þessum málaflokki staðið, sölustarfsemi sé í sátt við nærumhverfi sitt og að upplýsingar séu aðgengilegar og gagnsæjar.

Dagsala söluvagna

Þeir sem reka söluvagna geta sótt um söluleyfi á frá kl. 9 – 21 á nokkrum stöðum. Alls eru í boði 11 leyfi.

  • Káratorg, 1 stæði,
  • Frakkastígur/Skólavörðuholt, 2 stæði,
  • Mæðragarður, 1 stæði,
  • Fógetagarður, 2 stæði,
  • Hlemmur, 2 stæði,
  • Vesturbugt, 2 stæði
  • Bílastæði við Geirsgötu 13, 1 stæði.

Slík leyfi ná einnig að hluta til sölubifreiða svo fremi hægt sé að staðsetja þær á bílastæðum. Verð dagsöluleyfa er á bilinu 100 – 150 þúsund á ári.

Eftirsótt nætursöluleyfi

Á tímabilinu frá 22 – 4 að morgni er mögulegt að fá leyfi fyrir söluvagna og sölubifreiðar. Í reglunum segir um nætursöluleyfi að almennt skuli miða sölustarfsemi við lokun vínveitingahúsa. Þá er kveðið á um að lágmarksfjarlægð að inngangi næsta rekstraraðila með sambærilega vöru sé að minnsta kosti 20 metrar.

Í boði eru 10 nætursöluleyfi, en 6 þeirra hefur þegar verið ráðstafað til maí 2015 samkvæmt eldri reglum.

  • Lækjartorg eða Austurstræti sunnan við Héraðsdóm (7 stæði að hámarki)
  • Vesturbugt (2 stæði)
  • Bílastæði við Geirsgötu 13

Nætursöluleyfin ná einnig að hluta til sölubifreiða eins og dagsöluleyfin. Árgjald fyrir leyfi til nætursölu er 250 þúsund kr.

Kröfur um umgengni

Reykjavíkurborg gerir kröfur til þeirra sem fá leyfi um hreinsun og gott aðgengi.

  • Umhverfi sölusvæðis sé ávallt haldið hreinu.
  • Snjómokstur og hálkuvarnir í nánasta umhverfi sölusvæðis sé sinnt, þannig að öryggi vegfarenda á hverjum tíma sé tryggt.
  • Fjarlægja skal söluaðstöðu ásamt öllum aðfluttum búnaði og sorpi af sölusvæði eftir lokun.
  • Engin ummerki skulu vera um starfsemina utan skilgreinds sölutíma
  • Framvísa skal leyfisskírteini ef eftirlitsaðili eða lögregla óska.

Hægt er að fjarlægja söluaðstöðu og hreinsa sölusvæðið á kostnað leyfishafa ef skilyrði eru ekki uppfyllt. 

Opnað fyrir umsóknir um miðjan maí

Í nýju reglunum er kveðið á um að auglýsa skuli með mánaðar fyrirvara um hið nýja fyrirkomulag og verður því opnað fyrir nýjar umsóknir 15. maí nk. Umsjón með veitingu leyfa hefur Umhverfis- og skipulagssvið og verður boðið upp á að sækja um leyfi fyrir götu- og torgsölu frá vefsíðunni   www.reykjavik.is/gotuogtorgsala  en þar verður settur tengill á Rafræna Reykjavík.

Grænmetismarkaður á Lækjartorgi.
Grænmetismarkaður á Lækjartorgi. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert