Vorið fór í páskafrí

Haglél á glugga. Skafan munduð á bílrúðurnar. Hálka á götunum. Það er engu líkara en það sé hávetur í höfuðborginni. Það er í raun ekki heimilt að aka á nagladekkjum frá og með deginum í dag - en flestir láta það nú væntanlega vera að taka þau undan.

Það var hvít jörð víðast hvar á suðvesturhorni landsins eftir nóttina. Einhverjir vöknuðu við haglél í nótt. Í gær var snjóföl yfir öllu en hún entist ekki lengi. Svo minnti vetur konungur á það í nótt að hann ræður enn ríkjum - heil vika er í sumardaginn fyrsta.

Næsta sólarhringinn er þetta veðurspá fyrir höfuðborgarsvæðið: Suðvestan 5-13 m/s og stöku él í fyrstu en hægari og úrkomulítið eftir hádegi. Gengur í sunnan 8-13 m/s með slyddu eða rigningu um hádegi á morgun. Hiti 0 til 5 stig.

Víða hálka á vegum

Það er hálka, hálkublettir eða jafnvel snjóþekja víða á Suður- og Vesturlandi. Þannig er t.d. hálka á Hellisheiði, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði en hálkublettir í Þrengslum, segir í frétt frá Vegagerðinni.

Á Vestfjörðum er einnig vetrarfærð, víðast hvar hálka eða snjóþekja.

Snjóþekja og hálka er á köflum á Norðurlandi. Snjóþekja er á Öxnadalsheiði og skafrenningur.

Hálka og hálkublettir eru á Mývatns- og Mörðudalsöræfum en vegir á Austurlandi eru aftur á móti víðast greiðfærir. Hálkublettir eru þó á Fjarðarheiði. Á Suðausturlandi eru hálkublettir í Öræfum og þaðan vestur úr.

Hér kemur svo veðurspá næstu daga, fyrir allt landið:

Á föstudag (föstudagurinn langi):
Suðvestan 13-20 m/s og él, en heldur hægari og léttir til á NA- og A-landi. Hiti 0 til 8 stig, hlýjast austast. 

Á laugardag:
Suðvestan 8-15 m/s. Léttskýjað NA- og A-lands, annars él. Hiti 0 til 5 stig, en víða næturfrost. 

Á sunnudag (páskadagur):
Sunnan- og suðvestanátt með skúrum eða éljum, en bjartviðri á NA-verðu landinu. Hiti 0 til 7 stig að deginum, hlýjast við NA-ströndina. 

Á mánudag (annar í páskum):
Suðlæg átt og bjartviðri A-til, en minnkandi él á V-verðu landinu. Rigning eða slydda á SV- og V-landi um kvöldið. Hiti breytist lítið. 

Á þriðjudag:
Útlit fyrir suðaustanátt með vætu S- og V-lands. Hlýnandi veður.

Sjá veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert