Bætir í vindinn eftir hádegi

Von er á stormi þegar líður á daginn.
Von er á stormi þegar líður á daginn. Rax / Ragnar Axelsson

Veður á landinu mun versna nokkuð eftir hádegi en búist er við stormi norðvestan- og vestanlands og á hálendinu. Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands fer veðrið að versna eftir hádegi og má búast við slyddu eða snjókomu um þrjúleytið, til að mynda á höfuðborgarsvæðinu, á Reykjanesinu, á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum.

Þessu fylgir nokkur vindur og mun hann ná fullum styrk um sexleytið kvöld. Um tíuleytið í kvöld snýst veðrið yfir í suðvestlægari áttir og dregur úr vindi til að byrja með. Þessu fylgir aftur á móti kólnandi veður.

Margir ætla eflaust að leggja land undir fót í tilefni páskanna en að sögn veðurfræðings ættu ferðalangar sem stefna á norðvestan- og vestanvert landið að leggja tímanlega af stað og fylgjast vel með veðurspánni. 

Veðurhorfur næsta sólarhringinn:

Minnkandi norðan átt og léttir heldur til austantil á landinu. Vaxandi sunnan átt og þykknar upp vestantil á landinu með slyddu eða snjókomu um hádegi. Sunnan 13-23 m/s og rigning eða slydda síðdegis, hvassast á Snæfellsnesi. Hægari og lengst af þurrt austantil á landinu. Suðvestan 15-23 m/s í nótt og á morgun, hvassast norðvestan og vestanlands, en léttir til norðaustan- og austanlands. Hlýnandi veður, hiti 1 til 8 stig seint í kvöld, en svalara á morgun.

Á morgun, föstudag:
Suðvestan 15-23 m/s og él, en heldur hægari og þurrt og bjart að mestu fyrir austan. Dregur heldur úr vindi síðdegis. Hiti 0 til 6 stig að deginum, hlýjast austast. 

Á laugardag:
Suðvestan 8-15 m/s. Léttskýjað NA- og A-lands, annars él. Hiti 0 til 5 stig, en víða næturfrost. 

Á sunnudag:
Suðvestan 8-13 og él, en hægari og bjartviðri á NA-verðu landinu. Hiti breytist lítið. 

Á mánudag (annar í páskum):
Vaxandi suðaustlæg átt með slyddu eða rigningu. Hiti 1 til 7 stig. 

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir suðaustanátt með vætu S- og V-lands. Hlýnandi veður.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert