Klúbbur í mikilli sókn

Frá Húfatóftavelli.
Frá Húfatóftavelli.

Golfklúbbur Grindavíkur tók nýverið í notkun nýja og endurbætta vefsíðu, www.gggolf.is. Á vefsíðunni er hægt að finna allar helstu upplýsingar um Golfklúbb Grindavíkur, sögu klúbbsins, fréttir og upplýsingar um Húsatóftavöll. Vefsíðan er glæsileg og er hönnuð með nýjustu tækni í huga. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Nýi vefurinn er unninn í samstarfi við Hype Markaðsstofu. Við hönnun vefsíðunnar var litið til þess að auðvelda snjallsíma- og spjaldtölvueigendum aðgengi að síðunni. Óhætt er að segja að það hafi tekist því notendaviðmót hentar ekki síður fyrir snjallsíma og spjaldtölvur en fyrir hefðbundnar tölvur.

„Golfklúbbur Grindavíkur er í mikilli sókn. Húsatóftavöllur stækkaði í 18 holur fyrir tveimur árum og á sama tíma tókum við í notkun nýjan golfskála. Við teljum að ný og endurbætt vefsíða sýni þann metnað sem ríkir í klúbbnum. Upplýsingaflæði til félagsmanna GG og kylfinga um land allt mun taka stakkaskiptum með tilkomu þessarar vefsíðu,“ er haft eftir 
Halldóri Eini Smárasyni, formanni Golfklúbbs Grindavíkur.

Búið er að opna inn á sumarflatir á Húsatóftavelli og er völlurinn opinn þegar veður leyfir. Allir kylfingar velkomnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert