Með frosið sjampó í sturtu

Vilborg Arna dvelur nú í grunnbúðum Everest.
Vilborg Arna dvelur nú í grunnbúðum Everest. Ljósmynd/Vilborg Arna

Fjallgöngugarpinn Vilborg Arna Gissurardóttir hefur nú dvaldið í grunnbúðum Everest í nokkra daga. Hún segist vera farin að venjast aðstæðum og regla sé komin á lífið. „Hérna gengur lífið út á að æfa, borða og hvíla,“ skrifaði Vilborg Arna á vefsíðu sína í gær.

„Í dag er til dæmis hvíldardagur og notaði ég tækifæri til að komast í langþráða sturtu. Sjampóið og hárnæringin var að vísu gaddfreðin svo ég þurfti að geyma brúsana með heita vatninu í dágóða stund áður en sjálfur þvotturinn gat hafist. En góð var sturtan og mikið líður mér vel með hreint hárið,“ segir Vilborg Arna og slær á létta strengi.

Á þriðjudag fór Vilborg Arna ásamt hópnum upp í 5.800 metra hæð, en gangan er hluti af hæðaraðlögunarferlinu. „Við gengum upp í camp 1 á Pumori sem er ákaflega formfagurt fjall en jafnframt eitt það hættulegasta i Himalajafjallgarðinum. Fjallið hefur lika haft mikil ahrif á islenska fjallamennsku því þrir Íslendingar hafa látíð lífið á fjallinu,“ segir Vilborg Arna.

„Þennan dag leið mér ekkert sérstaklega vel, ég var hæg og kraftminni en venjulega. En háfjallamennskan gengur að hluta til út á að halda út þessa erfiðu daga. Útsýnið frá campinum var stórkostlegt, við sáum toppinn á Everest, allan norðurhrygginn, Lhotse, ísfallið og fleira.“

Vilborg Arna hitti Ingólf Ragnar Axelsson, þrítugan Akureyring, og Sögu Garðarsdóttur þennan dag en hann mun einnig klífa Everest í vor. Ingólfur dvelur í næstu búðum við Vilborgu Örnu og því stutt á milli hjá Íslendingunum en Saga mun fara aftur niður af fjallinu. 

„Í gær leið mér aftur á móti betur og var öllu hressari í tækniæfingunum en þær fóru fram á jöklinum. Tilgangur þeirra er að undirbúa okkur undir ferðirnar í gegnum ísfallið og brattari hluta ofar í fjallinu,“ segir Vilborg Arna. Hópurinn skemmti sér vel við æfingarnar og gekk hann meðal annars á álstigum í broddum, seig með akkeri og fleira. Hópurinn er vel stemmdur eftir æfingarnar en hvíldinni feginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert