Óveður á Kjalarnesi

Óveður er á Kjalarnesi.
Óveður er á Kjalarnesi. Ljósmynd Leifur Hákonarson

Óveður er á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli og á Sandskeiði.  Snjóþekja og skafrenningur er á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka og skafrenningur er á Sandskeiði, á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. Hálkublettir eru nokkuð víða í uppsveitum á Suðurlandi, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar.

Í ábendingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar segir að það hvessi og hlýni ört á landinu í dag. Undir Hafnarfjalli og sums staðar á norðanverðu Snæfellsnesi er reiknað með snörpum hviðum á milli kl. 15 og 19, allt að 35-45 m/s. Sjá nánar á veðurvef mbl.is.

Á Vesturlandi er að mestu greiðfært á láglendi en hálkublettir og víða éljagangur á fjallvegum og á norðanverðu Snæfellsnesi. Óveður er í Búlandshöfða og hálkublettir og óveður í Kolgrafafirði. Hálka og óveður er á Fróðárheiði og hálka og skafrenningur á Vatnaleið. Snjóþekja og skafrenningur er á Bröttubrekku og á Holtavörðuheiði.

Vegir á Vestfjörðum eru að mestu greiðfærir á láglendi en hálkublettir, hálka eða snjóþekja á fjallvegum. Snjóþekja og óveður er á Kleifaheiði en þæfingsfærð og skafrenningur á Mikladal.  Snjóþekja og éljagangur er á Hálfdán, Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Snjóþekja er norður í Árneshrepp.

Það er víðast orðið autt á Norðurlandi vestra en þó er hálka á Þverárfjalli og hálkublettir á Vatnsskarði og Siglufjarðarvegi. Austan Eyjafjarðar eru vegir einnig að verða auðir en þó er hálka á Dettifossvegi en hálkublettir á Hófaskarði og á Brekknaheiði.

Á Mývatnsöræfum eru hálkublettir en snjóþekja á Möðrudalsöræfum og á Vopnafjarðarheiði.

Vegir á Austurlandi eru greiðfærir fyrir utan hálkubletti Vatnsskarði eystra.

Greiðfært er á Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert