Völdin færð til almennings

Á síðasta ári hófst sala á þrívíddarprenturum til almennings hér á landi á verði sem flestum ætti að vera viðráðanlegt hafi þeir áhuga á tækninni. Sagt hefur verið að þetta muni gjörbylta neysluháttum fólks. Sú bylting er þó skammt á veg komin og ekki sjá allir not fyrir að geta prentað sín eigin iPhone hulstur eða einföld plastleikföng.

Þeir sem horfa fram á veginn sjá hlutina þó í öðru ljósi og sagan hefur sýnt að jafnvel mestu tæknibyltingum hefur verið hafnað á svipuðum forsendum þ.e. að um leikföng sé að ræða. Fræg er sagan af yfirmönnum símskeytarisans Western Union sem árið 1876 höfnuðu því að kaupa einkaleyfi Alexanders Grahams Bell á símtækninni á þeim forsendum að lítil praktík væri í slíku leikfangi.

Völdin til almennings

Meira hefur þó farið fyrir trú á tækninni sem ekki er óalgengt að sé borin saman við það sem gerðist  við lok síðustu aldar þegar hugverkaiðnaðinum var snúið hvolf með ótakmörkuðu flæði á tónlist og afþreyingarefni. Nú þegar er t.a.m. hægt að nálgast mikið af þrívíddarteikningum á hinum alræmda sjóræningjavef piratebay sem hægt er að hlaða niður og prenta. Þá er ekki óalgengt að líkja þrívíddarprentun við prentbyltingu Gutenbergs en það er samlíking sem Ólafi Andra Ragnarssyni, dósent við Háskólann í Reykjavík, segir ekki fjarri lagi en hann kennir námskeið um nýja tækni við skólann.

Ólafur Andri bendir á að prentbyltingin hafi tekið völdin frá þeim sem stýrðu upplýsingunum, kirkjunni og aðlinum, og fært hana til fólksins: „Hver sem er getur framleitt vörur, verið hönnuður, getur skapað eitthvað nýtt, getur náð í skrár breytt þeim og aðlagað eftir sínu höfði. Nákvæmlega eins og menn vilja gera það, þannig að völdin eru farin frá kóngunum, kirkjunni og framleiðendum yfir til almennings. Það er gríðarleg bylting.“

Fleiri og minni markaðir

Síðasta öld einkenndist af fáum stórum framleiðendum sem framleiddu gríðarlegt magn af vörum fyrir stóra markaði. Allt bendir til að 21. öldin verði gjörólík, gott dæmi er landslagið í tónlistarheiminum þar sem mun fleiri tónlistarmenn skapa nú fjölbreyttari tónlist fyrir minni markaði og styrkurinn felst gjarnan í sérkennum vörunnar, það sem gerir hana ólíka annarri tónlist. Þetta hefur verið styrkur íslenskra tónlistarmanna sem hafa sótt á erlenda markaði.

„20. öldin snerist um tugi markaða með milljónum neytenda. 21. öldin snýst um milljónir markaða með tugum neytenda,“ segir netfrumkvöðullinn Joe Kraus í viðtali við BBC. Hann lærði af reynslunni eftir að hafa tapað í samkeppninni um leitarvélamarkaðinn á netinu fyrir Google. Vefþjónustan hans Excite.com var eitt best þekkta vörumerkið á netinu á tíunda áratug síðustu aldar en varð undir í samkeppninni gegn Google. Excite líkt og hefðbundin fjölmiðlafyrirtæki sótti auglýsingatekjur sínar til nokkurra stórfyrirtækja á meðan Google milljónir smáfyrirtækja auglýstu hjá Google.     

Handverk og hönnun á krossgötum

„Framleiðsla og verslun eru að sameinast aftur,“ segir Garðar Eyjólfsson, fagstjóri og lektor í vöruhönnun við Listaháskólann. Til marks um það segir hann hönnuði t.a.m. vera tekna að ferðast borg úr borg með þrívíddarprentara og laser-skurðarvél þar sem þeir hanna og framleiða skó á staðnum. „Þar er í rauninni verið að enduruppgötva skógerð sem var þá handverk í gamla daga.“ 

Ekki síður er horft til þess hvernig tæknin geti haft áhrif á það sem fer til spillis í samfélaginu og fást tvö útskriftarverkefni MA-nema við skólann á ár að einhverju leyti við það verkefni. Þegar er byrjað að endurnýta plastefni úr notuðum umbúðum til að búa til efni sem hægt sé að nýta í þrívíddarprentara. Garðar hefur fyrirvara á því að einblína um of á tæknina því þá geti fólk tapað yfirsýn á hönnunarferlið sjálft en hann segir það breyta miklu að geta skapað mót án mikillar fyrirhafnar sem hafi áður verið dýrt og á fárra færi.

Málmprentun handan við hornið

Tæknin á bak við þrívíddarprentun er síður en svo ný af nálinni, um þrjátíu ár eru síðan farið var að beita henni og hefur hún verið stunduð á nokkrum stöðum hér á landi. Ástæðan fyrir því að hún hefur komist í sviðsljósið að undanförnu er að einkaleyfi runnu út sem gerðu mögulegt að framleiða ódýra en góða prentara fyrir almenning. Þeir hafa einungis getað prentað úr plasti en stutt er síðan svipuð einkaleyfi fyrir prentun úr málmum (e. sintering) runnu út og eru bundnar vonir við að það muni hafa mikil áhrif á þróunina.

Þegar möguleikinn á því að prenta út hluti á borð við varahluti í bíla eða heimilistæki, með ódýrum hætti, opnast má gera ráð fyrir að áhrifin á samfélagið verði áþreifanleg. Fyrirtæki munu hætta að halda stóra og dýra lagera á hlutum sem þurfa að vera til en lítil hreyfing er á auk þess sem tilraunastarfsemi í framleiðslu kemur til með að fá byr í seglin.  

Í myndskeiðinu má sjá viðtöl við fólk hér á landi sem þekkir tæknina og hefur kynnt sér hana.

Bas Withagen verkefnastjóri FabLab í Breiðholti fer yfir framleiðsluna með …
Bas Withagen verkefnastjóri FabLab í Breiðholti fer yfir framleiðsluna með Hjörleifi Ingasyni.
Baldur Jóhannsson er einn meðlima í Hakkavélinni þar sem verið …
Baldur Jóhannsson er einn meðlima í Hakkavélinni þar sem verið er að smíða þrívíddarprentara.
Ýmislegt er hægt að gera í FabLab í Breiðholti, þar …
Ýmislegt er hægt að gera í FabLab í Breiðholti, þar sem almenningur fær aðstoð við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd.
Fáir sjá not í einföldum og frumstæðum leikföngum en möguleikunum …
Fáir sjá not í einföldum og frumstæðum leikföngum en möguleikunum í þrívíddarprentun fjölgar hratt.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert