Erill hjá lögreglu í páskafríinu

Lögreglan
Lögreglan Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt, aðfaranótt föstudagsins langa.

Sex ökumenn voru stöðvaðir víðs vegar um borgina vegna gruns um akstur undir áhrifum ölvunar eða fíkniefna. A.m.k. einn þeirra olli umferðaróhappi. Flestum var sleppt að lokinni sýna- og skýrslutöku, en einn ökumaður sem tekinn var ölvaður kl. 20:19 í gærkvöldi fékk að gista í fangageymslu.

Rétt fyrir klukkan tvö í nótt var maður handtekinn vegna gruns um líkamsárás. Fórnarlambið var flutt á slysadeild að sögn lögreglu, en ekki fengust upplýsingar um hversu alvarleg meiðslin voru. Árásarmanninum var haldið inni í nótt.

Um hálfþrjúleytið í nótt var lögreglu tilkynnt um rúðubrot. Þar hafði grjóti verið kastað í gegnum rúðu á íbúðarhúsi. Ekki er vitað hver þar var að verki.

Stuttu eftir miðnætti var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki. Ekki liggur fyrir hvort einhverju var stolið. Þá voru tvö eldsútköll í gærkvöldi, annað vegna mikils reyks út frá arni í heimahúsi og hinsvegar vegna elds í skúr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert