„Hef ekki áhuga á að vera nakin hjá ókunnugum lækni“

Bólusett er gegn HPV-veirunni.
Bólusett er gegn HPV-veirunni. mbl.is

Á síðasta ári komu rúmlega 31 þúsund konur í leghálskrabbameinsskoðun. Sama gilti um árið 2012, en árið 2010 komu um 25 þúsund konur. Í skoðuninni er leitað að krabbameini í leghálsi og er hún framkvæmd með því að taka sýni þaðan og senda til rannsóknar.

Í dag er mælt með því að konur á aldrinum 23 til 65 ára, sem stundað hafa kynlíf, komi á þriggja ára fresti í skoðun. Þessu var breytt um áramótin, áður var lagt til að komið væri á tveggja ára fresti.

30% íslenskra kvenna koma reglulega í skoðun. Um 16 konur greinast með leghálskrabbamein hér á landi á hverju ári, en talið er að þær væru að minnsta kosti 45 ef ekki væri boðið upp á leit að krabbameininu. Um tvær konur deyja á hverju ári hér á landi af völdum krabbameinsins. 

Nánast allir smitaðir af veirunni

„Almenningur gerir sér ekki nægilega grein fyrir að frumubreytingar í leghálsi orsakast af HPV-veirunni, en hún smitast við kynlíf og nánast allar konur og karlar smitast einhvern tímann á lífsleiðinni af veirunni en sem betur fer losna um 90% við hana innan tveggja ára frá smiti,“ segir Kristján Oddsson, yfirlæknir og sviðsstjóri leitarsviðs Krabbameinsfélags Íslands.

Ekki er hægt að ganga úr skugga um að kona sé smituð nema hún mæti í skoðun. Kristján bendir á að í dag sé vitað að HPV-veiran orsaki leghálskrabbamein, ólíkt öðrum krabbameinum þar sem örsök meinsins er yfirleitt ekki þekkt. Því er auðvelt að mæta í skoðun og kanna málið áður en krabbameinið nær að breiða úr sér.

Greinist helst hjá þeim sem koma sjaldnar

Svo virðist sem íslenskar konur séu duglegri að mæta í leitina nú en áður og hefur mætingin aukist um 3% milli ára að sögn Kristjáns. Hann segir að flestar konur á aldrinum 23 ára til 65 ára hafi komið í skoðun, en þær koma vissulega mis oft.

„Galdurinn liggur í að koma reglulega, meinið greinist helst hjá þeim sem láta langt líða á milli. Nánast er hægt að koma í veg fyrir alvarlegt krabbamein með því að koma reglulega, á þriggja ára fresti,“ segir Kristján.

Í flestum tilvikum veldur veiran ekki neinum einkennum og vita konurnar því ekki að þær hafi veiruna. Eina leiðin til að vita hvort þú ert sýkt af HPV sem veldur leghálskrabbameini er að mæta reglulega í leghálskrabbameinsleit í Leitarstöðinni, á heilsugæslustöð eða hjá kvensjúkdómalækninum þínum þegar þú færð boðsbréf frá Leitarstöðinni,“ segir á vefsíðu Krabbameinsfélagsins.

Þori ekki, hef heyrt að þetta sé vont

Í fyrra skiluðu konur á aldrinum 25 til 39 ára sér best í leitina, þá konur á aldrinum 40 til 69 ára og að loks konur á aldrinum 20 til 24 ára. Það sama var uppi í teningnum árið 2012. Um 40% þeirra kvenna sem fara í leghálskrabbameinsskoðun biðja sjálfstætt starfandi kvensjúkdómalækna að framkvæma skoðunina. 

Ég hef ekki tíma.
Ég þori ekki, hef heyrt að þetta sé vont.
Ég hef heyrt að þetta hafi eitthvað með krabbamein að gera en ég er bara 23 ára og ég get ekki verið með krabbamein.
Ég er hrædd um að það finnist eitthvað sem er að.
Ég hef ekki áhuga á að vera nakin hjá einhverjum ókunnugum lækni.

Í nýrri auglýsingu frá Krabbameinsfélaginu er farið yfir nokkrar algengar afsakanir kvenna fyrir því að fara ekki í leghálskrabbameinsskoðun. Kvenkynslæknanemar á öðru ári við Háskóla Íslands og aðrir velunnarar Krabbameinsfélagsins leika aðalhlutverkin í auglýsingunni. Þær fræða áhorfandann einnig um ferlið að baki krabbameinsleitinni.

Á heimasíðu Krabbameinsfélagsins kemur meðal annars fram að frumusýnið sé tekið úr leghálsi, bæði af ljósmæðrum og læknum. Ef komið er í Leitarstöðina, er alltaf hægt að óska sérstaklega eftir ljósmóður, kvenkyns- eða karlkynslækni, þegar tími er pantaður eða konan er komin á staðinn. 

Spurningar og svör um HPV-veiruna

Spurningar og svör um leghálskrabbameinsskoðun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert