Stormurinn gerði lítinn usla

Björgunarsveitarmenn komu bílstjórum til aðstoðar á heiðarvegum bæði vestanlands- og …
Björgunarsveitarmenn komu bílstjórum til aðstoðar á heiðarvegum bæði vestanlands- og austan. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitir Landsbjargar hafa að mestu haft það náðugt undanfarinn sólarhring þótt stormur hafi gengið yfir landið. Einhverjir ökumenn þurftu þó aðstoð við að losa bíla sína á heiðarvegum bæði austanlands og vestan.

Björgunarsveitinn Jökull á Jökuldal kom fólki í þremur bílum til aðstoðar í gærkvöldi og var að fram að miðnætti. Á Steingrímsfjarðarheiði voru einnig nokkrir bílar sem festust. Þess utan hefur ekkert heyrst af tjóni eða vandræðum vegna veðursins.

Áfram er búist við stormi á Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og á hálendinu fram eftir degi í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru víða hálkublettir og sumstaðar óveður á fjallvegum.

Á  Vestfjörðum er snjóþekja eða hálkublettir á flestum leiðum. Óveður er á Hálfdán og í Mikladal. Hálka og skafrenningur er á Klettshálsi. Hálkublettir og óveður er á Hjallaháls. Ófært og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði en þæfingsfærð og skafrenningur er á Þröskuldum. Hálkublettir eru á Innstrandavegi og skafrenningur á Ennishálsi. Þungfært er norður í Árneshrepp.

Á Norðurlandi eru flestir vegir á láglendi greiðfærir, þó eru hálkublettir í Húnavatnssýslum. Hálkublettir og óveður er á Þverárfjalli en ófært og óveður á Öxnadalsheiði. Hálkublettir og skafrenningur er á Víkurskarði og Fljótsheiði. Hálkublettir eru á Hólasandi og Sandvíkurheiði.

Á Vesturlandi eru hálkublettir og éljagangur er á Fróðárheiði og í Búlandshöfða. Hálka og óveður er á Holtavörðuheiði og hálkublettir og óveður á Laxárdalsheiði. Hálka er á Bröttubrekku en snjóþekja í Svínadal.

Ófært er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum sem og á Vopnafjarðarheiði. Vegir á Austurlandi eru víða greiðfærir, þó eru hálkublettir á Fjarðarheiði.

Greiðfært er á Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert