Veður er að ganga niður

Hálka er á Hellisheiði en hálkublettir á Mosfellsheiði.
Hálka er á Hellisheiði en hálkublettir á Mosfellsheiði. mbl.is/Rax

Suðvestan vindurinn  sem gengið hefur yfir landið er hægt og bítandi að ganga niður, en þó ekki markvert fyrr en síðdegis. Él verða um vestanvert landið og víða einhver skafrenningur á fjallvegum. Kólnar á láglendi í kvöld og myndast ísing á vegum suðvestan- og vestanlands, að því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Færð og aðstæður

Hálka er á Hellisheiði en hálkublettir á Mosfellsheiði og sumstaðar á útvegum á Suðurlandi þótt þar sé víðast greiðfært.

Á Vesturlandi eru hálkublettir á flestum fjallvegum en greiðfært á láglendi. Á Holtavörðuheiði er snjóþekja, hvassviðri og skafrenningur.

Á Vestfjörðum er mikið autt á láglendi en víða nokkur hálka eða snjóþekja og skafrenningur á  fjallvegum. Vegurinn norður á Árneshrepp er þungfær.

Á Norðurlandi eru flestir vegir greiðfærir. Þó er snjóþekja og skafrenningur á Þverárfjalli en hálkublettir m.a. á Vatnsskarði, Öxnadalsheiði og Víkurskarði.

Opið er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi  og um Vopnafjarðarheiði en þar eru hálkublettir og snjóþekja. Vegir á Austurlandi eru annars greiðfærir.

Vegir eru auðir á Suðausturlandi en sandfok er í Hvalnesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert