151 keppti í fitness

Þátttökumet var slegið á Íslandsmóti líkamsræktarmanna sem fór fram um páskana í Háskólabíói þegar 151 keppandi steig á svið. Flestir bestu keppendur landsins tóku þátt og er óhætt að segja að nýjar stjörnur hafi fæðst á Íslandsmótinu, að því er segir á vefsíðu Fitnessfrétta.

Að lokinni keppni í einstökum flokkum tók við heildarkeppni þar sem sigurvegarar flokka mættust. Heildarsigurvegari fitnessflokka kvenna varð Guðrún Hólmfríður Ólafsdóttir, í módelfitness varð Karen Lind Thompson heildarsiguvegari og í vaxtarræktinni varð Gísli Örn Reynisson Schramm sigurvegari.

Sigurvegarar í fitnessflokkum karla voru þeir Elmar Þór Diego sem sigraði í fitness karla, Snæþór Ingi Jósepsson sem sigraði unglingaflokkinn og Mímir Nordquist sem sigraði í sportfitness.

Nánar má lesa um Íslandsmótið á vefsíðu Fitnessfrétta en þar má einnig finna fjöldann allan af glæsilegum myndum sem teknar voru af keppendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert