Áframhaldandi éljagangur

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/RAX

Spáð er áframhaldandi éljagangi um vestanvert landið til morguns. Snjófjúk verður á fjallvegum, en hiti ofan frostmarks á láglendi í dag. Í kvöld og nótt mun festa snjó með tilheyrandi hálku í kvöld og nótt.

Þá er jafnframt spáð suðvestan 10-15 m/s og 13-18 í éljum um landið vestanvert, en 8-13 norðaustantil og bjartviðri. Draga mun úr vindi seint á morgun. Hiti 0 til 9 stig að deginum, mildast austantil.

Hálka á Hellisheiði

Hálka og éljagangur er á Hellisheiði, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Hálka eða hálkublettir eru víða á Suðurlandi.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum vegum. Á Holtavörðuheiði er hálka og skafrenningur og snjóþekja og skafrenningur er á Bröttubrekku.

Á Vestfjörðum er jafnframt víða snjóþekja eða hálka. Snjóþekja og skafrenningur er á Þröskuldum og á Steingrímsfjarðarheiði. Ófært er norður í Árneshrepp.

Á Norðvesturlandi er víða krapi eða hálka og einhver éljagangur. Hálka og skafrenningur er á Þverárfjalli. Á Norðausturlandi eru síðan flestir vegir greiðfærir, en þó eru hálkublettir á Öxnadalsheið og á Dettifossvegi.

Opið er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og um Vopnafjarðarheiði en þar eru hálkublettir á Möðrudalsöræfum. Vegir á Austurlandi eru að mestu greiðfærir, en hins vegar eru þó hálkublettir á Fjarðarheiði.

Vegir eru að mestu auðir á Suðausturlandi, en snjóþekja er frá Klaustri að Mýrdalssandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert