Heyra og sjá mörg snjóflóð á dag

Vilborg Arna dvelur nú í grunnbúðum Everest.
Vilborg Arna dvelur nú í grunnbúðum Everest. Ljósmynd/Vilborg Arna

„Hópur manna fór upp í fjallið í morgun til þess að sækja þá sem ekki var hægt að sækja í gær. Ég hef ekki frétt hvernig það gekk og hvort þeir náðu öllum,“ segir Vilborg Arna Gissurardóttir sem stödd er í grunnbúðum á Mount Everest en 16 manns eru látnir eftir snjóflóð sem féll á fjallinu í gær. 

„Við búum á jökulruðningi með ísbreiðuna nokkrum metrum frá okkur og við erum umkringd fjallasal. Við heyrum og sjáum snjóflóð falla nokkrum sinnum á dag og það er mjög algengt að heyra skruðninga og hljóð. En í gærmorgun þá urðu alveg ofboðsleg læti og ég vaknaði upp við að flóðið féll. Oftast falla flóðin þar sem fólk er ekki þannig að í fyrstu áttaði maður sig á því hvað hafði gerst og ég hugsaði bara: Vá hvað þetta hefur verið stórt flóð. En mjög fljótlega er ljóst að þarna hafði orðið slys og síðan var allt strax farið á fullt,“ segir Vilborg. 

Góð veðurskilyrði auðvelduðu björgunarstarf

Vilborg segir björgunaraðgerðirnar hafa gengið vel í gær og að góð veðurskilyrði hafi hjálpað til. „Það sem var sérstakt við gærdaginn var að það var hægt að fljúga þyrlunum næstum allan daginn og stöðvaði veðrið því ekki björgunaraðgerðirnar. Við erum mjög þakklát því yfirleitt þykknar veðrið upp eftir hádegi með skýjum og snjókomu og þá er ekki hægt að fljúga þyrlunum.“ 

Björgunarstarfið var vel skipulagt að sögn Vilborgar. Björgunaraðgerðunum var stýrt af mjög reynslumiklum mönnum. Hérna unnu allir sem eitt og menn skiptu mjög skipulega með sér verkum, það var svæðisstjóri grunnbúða, svæðisstjóri björgunaraðgerða í fjallinu, og svæðisstjóri yfir sjúkraaðgerðum og svo framvegis.“ 

Búðir leiðangurs Vilborgar eru vel útbúnar og voru þær nýttar fyrir þá sem voru minna slasaðir. Stórt sjúkrahústjald sé síðan í grunnbúðunum þar sem hægt var að sinna þeim slösuðustu áður en þeir eru sendir á sjúkrahúsið í Katmandú. Vilborg segist ekki vita hversu margir hafi slasast í snjóflóðinu en segist hafa heyrt það staðfest að 16 manns hafi látið lífið. 

Sjerpunum boðið að fara heim til fjölskyldna sinna

Hún segist óákveðin með framhaldið eins og komið er. Stór skörð hafi verið höggvin í sjerpa-samfélagið á svæðinu. „Ég bara hreinlega veit ekki hvað ég geri. Núna er ég ekkert að hugsa um toppinn, það verður bara aukaatriði á svona stundu, það er svo margt sem þarf að klára áður en toppurinn verður eitthvað forgangsmál. Stórt skarð hefur verið höggvið í sjerpa-samfélagið og við íslendingar þekkjum það þegar stórt skarð er höggvið í lítil samfélög í svona slysum.“

„Okkar sjerpum var boðið að fara heim til fjölskyldna sinna og fá þá frí frá vinnu. Við misstum þrjá frá okkar liði. Það fyrir öllu að að hlúa að þeim sem eiga um sárt að binda. Hér eiga allir frændur, bræður sem lentu í slysinu. Svo er óvíst með leiðina, flóðið féll náttúrulega í leiðina okkar þannig að það þarf að fara fyrir þau mál,“ segir Vilborg. 

Vilborg var nú að setja inn bloggfærslu um upplifun sína af hörmungunum á bloggsíðu sína. 

Ingólfur Axelsson, sem einnig er staddur í grunnbúðum á fjallinu sagði í viðtali í hádegisfréttum RÚV að hann hafi tekið þá ákvörðun að reyna að komast á toppinn og að sú ákvörðun hafi verið afar erfið. 

Hér má sjá gönguleiðina á Everest og staðinn þar sem …
Hér má sjá gönguleiðina á Everest og staðinn þar sem snjóflóðið féll, við Khumbu ísfallið. mbl.is/Elín Esther
Mount Everest
Mount Everest AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert