Ungmennaráð unnu að lýðræðisverkefni

Hópurinn á Bessastöðum
Hópurinn á Bessastöðum

Ungmennaráð Hafnarfjarðar tók nýverið þátt í lýðræðisverkefninu Youth: Your voice á vegum samtakanna Evrópa unga fólksins (EUF). 11.-16. apríl sl. komu ungmennaráð frá tveimur löndum, Noregi og Lettlandi, hingað til lands til þess að vinna að verkefninu með þeim og í október á síðasta ári fór ungmennaráð Hafnarfjarðar í heimsókn til Lettlands til þess að vinna að verkefninu. 

Markmið verkefnisins var að gera ungmenni að virkum þátttakendum í sínu nærumhverfi ásamt því að læra af hvoru öðru mismunandi aðferðir til þess að ná því markmiði. Í heimsókn ungmennaráðanna frá Noregi og Lettlandi hér á landi fór hópurinn í heimsókn á Bessastaði til þess að hitta forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson og ræða við hann um lýðræði. Þá hitti hópurinn bæjarstjórn Hafnarfjarðar á súpufundi þar sem rædd voru málefni ungmenna í Hafnarfirði. 

Hópurinn fékk einnig skoðunarferð um Alþingi auk þess sem þau heimsóttu Hitt húsið og fengu kynningu á starfseminni sem þar fer fram. 

Að sögn Elínar Láru Baldursdóttur, fulltrúa í ungmennaráði Hafnarfjarðar gekk verkefnið að mestu leyti eftir og hóparnir lærðu margt hvor af öðrum. Hápunktinn segir hún vera það að hafa fengið að kynnast öllum krökkunum sem þau störfuðu með og læra aðferðir sem hægt er að nota til þess að gera ungmenni að virkum þátttakendum í sínu nærumhverfi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert