Blindur drengur vann skákmótið

Blindi pilturinn Paulus Napatoq sigraði á Norlandair-meistaramóti Ittoqqortoormiit í skák, sem Hróksmenn stóðu fyrir um helgina. Paulus er Íslendingum að góðu kunnur og hefur í tvígang komið í skákferðir til Íslands. Keppendur á mótinu voru um 50 og var gleðin allsráðandi.

Talsvert óveður gekk yfir bæinn og þurfti leiðangursstjóri Hróksins, Róbert Lagerman, að byrja daginn á  því að smeygja sér út um glugga og grafa síðan ferðafélaga sinn út úr annars mjög vistlegu húsnæði Hróksmanna á Grænlandi. Eftir að varaforsetinn hafði greitt leiðina var efnt til meistaramóts Ittoqqortoormiit í skák.

Á facebooksíðu Hróksins segir að veðurskilyrði virðast hafa umtalsvert forspárgildi með þátttöku bæjarbúa, því það virðist sem svo að því svæsnara sem veðrið er, því fleiri mæta á skákviðburði Hróksins. 

Paulus Napatoq var úrskurðaður skákmeistari bæjarins eftir að hrein úrslitaskák hans og Siqqersoq Ferdinand Pike endaði í skrautlegri pattstöðu. Paulus Napatoq er vel að sigrinum kominn, en hann tapaði naumlega fyrir Siqqersoq á Bónus páskaeggjamótinu í gær. Á sunnudag halda leiðangursmenn til Cap Tobin, en þar er umferð ísbjarna hvað mest í heiminum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert