Gamla Ísland í hreyfimyndum á Youtube

Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands, gengur út úr Alþingishúsinu við Austurvöll. …
Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands, gengur út úr Alþingishúsinu við Austurvöll. British Pathé birtir m.a. myndefni af Churchill á heimleið frá Íslandi.

Fjöldi gamalla upptaka frá Íslandi á tímabilinu frá 1931 til 1961 voru í vikunni settar inn á Youtube-síðu gagnasafns bresku fréttaveitunnar Pathé News, sem vann frumkvöðlastarf í gerð þögulla hreyfifréttamynda á síðustu öld.

Gagnasafn Pathé News nefnist British Pathé og þar er að finna yfir 85.000 fréttamyndir, samtals 3.500 klukkustundir af sögulegu myndefni alls staðar að úr heiminum. Unnið er að því að setja það smám saman inn á YouTube svo það sé aðgengilegt öllum, og í vikunni birtust þar tugir myndskeiða með forvitnilegu efni frá Íslandi.

Bananaræktun og hernaður

Sjá má af efninu að Bretar hafa verið afar uppteknir af nýtingu Íslendinga á jarðhita, því umfjöllun um þau náttúruundur skýtur ítrekað upp kollinum. Einnig má sjá mikið af efni af hersetu bæði breska og bandaríska hersins hér á landi á stríðsárunum.

Svo dæmi sé tekið er þarna að finna stutt fræðslumynd frá 1961 um nýtingu jarðhita á Íslandi. Í bland við fallegar yfirlitsmyndir af 60.000 manna borginni Reykjavík má þar sjá myndir af blómlegri bananaræktun í gróðurhúsum. Ætli þaðan sé komin mýtan langlífa um að Ísland sé helsti bananaræktandi heims?

Sjá má fréttamyndir frá heimsókn Lord Gort til Íslands 1940, til að kynna sér starf breska hersetuliðsins. Einnig er myndefni frá heimsókn Filippusar prins, hertoga af Edinborg, til Íslands í fylgd Ásgeirs Ásgeirssonar forseta árið 1964 

Í öðru myndskeiði má sjá þöglar mannlífsmyndir frá götum Reykjavíkur árið 1931. Í meðfylgjandi texta segir m.a. „Götur Reykjavíkur eru ekki svo ólikar okkar eigin, og fólkið býr ekki grafið undir loðfeldum eins og við ímyndum okkur stundum vegna þess að loftslagið er harðneskjulegra hjá þeim en okkur.“

Sumt af efninu er merkt sem óbirt og ónotað, þar á meðal 5 mínútna langt myndskeið af íslenskum jöklum á suðausturlandi, mest frá Jökulsárlóni og Falljökli. Einnig er ónotað fréttamyndskeið af Winston Churchill á siglingu við strendur Íslands, á leið heim til Bretlands eftir heimsóknina árið 1941.

Eitt af ónotuðu og óbirtu myndskeiðunum heitir „Fórnarlömb flugslyss á Íslandi“ og sýnir m.a. myndir af flugvélabraki í fjallshlíð, fjölmennri útför frá Dómkirkjunni í Reykjavík og minningarathöfn bandarískra hermanna á stað sem sagður er óþekktur en er líklega við Nauthólsvík.

 Hreyfimyndasafn British Pathé er eitt það umfangsmesta í heimi. Þar er að finna heimildir um allt frá íþróttum og tísku til hernaðaraðgerða og daglegra starfa venjulegs fólks um miðja síðustu öld, á tímabilinu frá 1910 til 1970. 

Á YouTube síðu gagnasafnsins segir að markmiðið hafi verið að skrá allar hliðar heimsmenningarinnar með hinni nýju tækni hreyfimynda. Fréttamyndirnar voru sýndar í breskum kvikmyndahúsum, bæði til afþreyingar og fræðslu fyrir almenning. 

Gagnasafnið allt var gert stafrænt árið 2002, og var sú aðgerð að hluta til fjármögnuð af breska lottóinu. Árið 2010 var hafist handa við að gera allt efnið aðgengilegt almenningi á netinu, fyrst aðeins á heimasíðu British Pathé, en árið 2011 opnaði gagnasafnið YouTube rás.

Myndefnið frá Íslandi er liður í átaki sem sett var af stað nú í apríl, þar sem hlaðið var inn 85.000 sögulegum hreyfimyndum.

Sjá myndefnið frá Íslandi á YouTube-rás British Pathé

Sjá heimasíðu British Pathé

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert