Ekki spurt um samninga fyrri ríkisstjórnar

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, furðar sig á því af hverju fréttamaður Stöðvar 2 hafi ekki spurt Steingrím J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, að því í kvöldfréttum Stöðvar 2 hvers vegna ríkisstjórn hans gerði óuppsegjanlega verðtryggða leigusamninga við Reykjavíkurborg og Embætti landlæknis.

Í kvöldfréttunum sagði Steingrímur ýmislegt benda til þess að nokkrir langtímaleigusamningar um fasteignir sem ríkissjóður gerði fyrir hrun hafi jaðrað við að vera pólitísk spilling.

Var hann þá meðal annars spurður um samninga sem ríkissjóður gerði við dótturfélög Íslenskra aðalverktaka.

„Ég beið spenntur eftir því að fréttamaðurinn myndi spyrja hann af hverju ríkisstjórnin hans gerði (korteri fyrir kosningar)15 ára verðtryggðan óuppsegjanlegan samning við Reykjavíkurborg um leigu á Perlunni.

Samingurinn var gerður fram hjá Ríkiskaupum en það er fagstofnunin sem gerir leigusamninga fyrir ríkið. Perlusamningurinn var án útboðs. Húsnæðið hentar ekki undir starfsemi Náttúruminjasafns,“ segir Guðlaugur Þór á fésbókarsíðu sinni.

Hann segist einnig hafa átt von á því að Steingrímur yrði spurður út í samning vegna húsnæðis á Barónsstíg. Þar hafi lægsta tilboði ekki verið tekið og leigugreiðslurnar hafi jafnframt étið upp mögulegan sparnað af sameiningu Landlæknisembættisins og Lýðheilsustofnunar.

„Sú spurning kom heldur ekki,“ segir Guðlaugur Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert