Áttu bestu fræðigreinar ársins 2014

Unnið að jarðfræðirannsóknum í Gufunesi. Myndin er tekin af vef …
Unnið að jarðfræðirannsóknum í Gufunesi. Myndin er tekin af vef ÍSOR.

Jarðvísindamennirnir Guðni Axelsson, Knútur Árnason og Gylfi Páll Hersir hjá Íslenskum orkurannsóknum, ÍSOR, auk Hjálmars Eysteinssonar hjá Reykjavík Geothermal, fengu viðurkenningu Alþjóðajarðhitasambandsins (IGA) fyrir bestu fræðigreinarnar ársins 2014 tengdar jarðhitarannsóknum.

Alþjóðajarðhitasambandið veitir á hverju ári verðlaun fyrir bestu jarðhitavísindagreinarnar en tilgangur verðlaunanna er að efla rannsóknir og útgáfu slíkra greina á sviði jarðhitarannsókna. 

Í tilkynningu frá Í segir að grein Guðna Axelssonar fjalli um sjálfbæra nýtingu jarðhitans og að í áliti dómnefndar segi að sjálfbærni sé lykilatriði þegar reynt er að meta mögulegt framlag jarðhitans til að draga úr umhverfisáhrifum orkunýtingar. Í grein Guðna eru settar fram viðeigandi skilgreiningar, birt fræðileg greining á grundvelli reynslu frá  ólíkum jarðhitasvæðum víða um heim auk þess sem farið er yfir helstu atriði sem þarfnast frekari rannsókna. Þá er fjallað um hve langt inn í framtíðina skuli setja tímamörkin þegar fjallað er um sjálfbæra jarðhitanýtingu og bent á að eðlilegt sé að miða við 100–300 ár.

Greinin birtist í tímaritinu Geothermics árið 2010 og nefnist „Sustainable geothermal utilization – Case histories; definitions; research issues and modelling“.

Grein þeirra Knúts Árnasonar, Hjálmars Eysteinssonar og Gylfa Páls Hersirs fjallar um einvíða og þrívíða túlkun viðnámsmæligagna frá Hengilssvæðinu á Íslandi. Í áliti dómnefndar segir að viðnámsmælingar séu ein öflugasta aðferðin til jarðhitarannsókna. Í greininni er fjallað um nýja nálgun við notkun viðnámsmælinga með áherslu á túlkun gagna með líkönum í einni og þremur víddum. Greinin tekur fyrir jarðhitasvæði á Íslandi þar sem styrkur viðnámsmælinga hefur verið staðfestur auk þess að byggja á sameiginlegri túlkun viðnámsgagna og annarra jarðeðlisfræðilegra gagna.

Greinin birtist í tímaritinu Geothermics árið 2010 og nefnist „Joint 1D inversion of TEM and MT data and 3D inversion of MT data in the Hengill area, SW Iceland“.

Alþjóðajarðhitasambandið (International Geothermal Association) var stofnað 1988. Meðlimir þess eru um 5200 frá um 65 löndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert