Engin niðurstaða í kjaraviðræðum

Leifsstöð.
Leifsstöð. Ómar Óskarsson

Engin niðurstaða náðist í kjaradeilu flugvallastarfsmanna við Isavia í kvöld. Boðuð vinnustöðvun verður á flugvöllum frá kl. 4 til 9 í fyrramálið og mega flugfarþegar búast við þriggja til fjögurra klukkustunda seinkun á Keflavíkurflugvelli og tveggja klukkustunda seinkun á Reykjavíkurflugvelli á umræddu tímabili. Næsti fundur er boðaður hjá sáttasemjara um miðjan dag á morgun.

Kristján Jóhannsson, formaður og framkvæmdastjóri Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, sagði í samtali við mbl.is eftir að fundi lauk að ekki hafi verið talið þjóna tilgangi að funda áfram, þar sem enn beri svo mikið í milli.

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia verður unnið eftir viðbragðsáætlun sem miðar að því að takmarka sem mest röskun og óþægindi. Farþegum er bent á að fylgjast með tilkynningum á vefsvæðum flugfélaganna, Keflavíkurflugvallar eða Isavia um breytingar sem kunna að verða á flugáætlun.

Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli verður opin og farþegar Icelandair geta notað sjálfsinnritunarstöðvar fyrir klukkan 9 en hefðbundin innritun, farangursafhending og vopnaleit hefst ekki fyrr en eftir þann tíma. Farþegar komast því ekki inn á fríhafnarsvæði eða að brottfararhliðum fyrr en eftir þann tíma.

Frétt mbl.is: Icelandair breytir áætlun sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert