Hrafnseyri loks í netsamband

Frá Hrafnseyri.
Frá Hrafnseyri. Jim Smart

Samningar hafa náðst milli menntamálaráðuneytisins og tölvufyrirtækisins Snerpu þess efnis að Snerpa tengi ljósleiðara á Hrafnseyri í Arnarfirði. Þar með kemst þetta forna höfuðból í gott netsamband, að því er segir í frétt á vef Bæjarins besta.

Þar segir að síðastliðið haust hafi Snerpa tekið í notkun ljósleiðara Orkufjarskipta frá Tjaldanesi í Mjólká og að nú hafi náðst samningar um að tengja Hrafnseyri inn á þessa nýju leið.

Tengingin mun þó ekki komast á fyrr en í maí þar sem panta þarf og leggja ljósleiðara heim á bæjarhlaðið en um fjögurra til sex vikna afgreiðslufrestur er á nauðsynlegu efni hjá birgjum.

„Það má þó segja að stórum áfanga sé náð með þessu þar sem nú opnast nýir möguleikar á ýmiss konar ráðstefnuhaldi og námskeiðum á Hrafnseyri á sumrin, en skortur á góðu netsambandi hefur verið vandamál í tengslum við slíkt þar til nú,“ segir í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert