Icelandair breytir áætlun sinni

Icelandair hefur breytt áætlun allra flugvéla sem fara frá Bandaríkjunum í dag og allra flugvéla sem eru í áætlun á morgun. Er það vegna verkfalls starfsmanna Isavia á Keflavíkurflugvelli. Gera má ráð fyrir að flestum brottförum seinki um þrjár til fjórar klukkustundir.

Á vefsvæði Icelandair segir að upplýsingar um nýja brottfarartímann verða sendar á öll tölvupóstföng og farsímanúmer sem félagið hefur tiltæk úr bókunum. „Verkfallið veldur því að Keflavíkurflugvöllur er lokaður frá kl. 04:00 til kl. 09:00 að morgni 23. apríl með þeim afleiðingum að öllu flugi Icelandair til og frá flugvellinum á þessum tíma mun seinka þar til eftir kl. 09:00 en engu flugi verður aflýst.  Gera má ráð fyrir að flestum brottförum þennan morgun seinki um þrjár til fjórar klukkustundir og jafnframt að röskun verði á flugi næsta sólarhringinn á eftir.

Innritun í Keflavík opnar kl 09:00 og því munu flug til Evrópu fara á milli 10:00 og 11:00, eftir því hve vel gengur með innritun og öryggisleit.“

Einnig verður seinkun á áætlunarflugi WOW Air til og frá Kaupmannahöfn, London og Varsjá. Á vefsvæði WOW segir að gera megi ráð fyrir að brottfarir og komur á flugi seinki um 3-4 klukkustundir.

„Það má búast við miklu álagi á Keflavíkurflugvelli þegar vinnustöðvun lýkur og því biðjum við farþega okkar að mæta tímanlega til innritunar, ekki seinna en klukkan 9 í fyrramálið í innritun í morgunflug,“ segir á vefsvæði WOW.

Kristján Jóhannsson, formaður og framkvæmdastjóri Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að enn sé fundað og reynt að ná niðurstöðu í kjaradeilu félagsins við Isavia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert