Jórunn segir skilið við Sjálfstæðisflokkinn

Jórunn Frímannsdóttir
Jórunn Frímannsdóttir mbl.is/Valdís Thor

„Sjálfstæðisflokkurinn á ekki lengur samleið með okkur og við ekki með honum,“ segir Jórunn Ósk Frímannsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en greinir frá því á versvæði sínu í kvöld að hún komi að stofnun nýs stjórnmálaflokks.

Jórunn segist lengi hafa verið þeirrar skoðunar að Ísland eigi að láta reyna á samninga við Evrópusambandið og halda viðræðum áfram. Hún segist hafa farið á fund Davíðs Oddssonar fyrir landsfundinn 2010 til að ræða um þau „miklu mistök“ sem flokkurinn væri að gera með sinni „einstrengingslegu afstöðu“. „Það er skemmst frá því að segja að ég hafði ekki erindi sem erfiði og við höfum ekki haft erindi sem erfiði.“

Þá segir hún að Evrópusinnaðir sjálfstæðismenn hefðu átt að segja skilið við flokkinn eftir síðasta landsfund, en hafi ekki gert. Í kjölfar þess að lögð var fram þingsályktunartillaga um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka hafi hins vegar hjólin farið að snúast. „Við ákváðum að hittast aftur og ráða ráðum okkar. Til að gera langa sögu stutta, er nú svo komið að í farvatninu er stofnun nýs flokks. Sjálfstæðisflokkurinn á ekki lengur samleið með okkur og við ekki með honum. Ég veit ekki á hvaða vegferð Sjálfstæðisflokkurinn er í dag en að mínu mati er hann ekki á þeirri vegferð sem ég vil sjá.“

Hún segir að vandað verði til alls undirbúnings enda liggi ekkert á, þrjú ár séu að óbreyttu í næstu kosningar. „Ég hef óskað formlega eftir því að fara af lista Sjálfstæðisflokksin til borgarstjórnarkosninga og þar með hef ég afþakkað heiðursætið. Mér finnst ég ekki eiga annarra kosta völ í stöðunni. Ég vona að félagar mínir innan flokksins virði afstöðu mína og vil þakka þeim fyrir samstarfið á liðnum árum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert