Ölvuð undir stýri en sýknuð

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað konu af ákæru um ölvunarakstur þar sem ekki þótti sannað að hún hefði haft ásetning til að aka bifreiðinni. Óumdeilt var í málinu að konan sat undir stýri á meðan bifreiðin var í gangi.

Samkvæmt því sem segir í dómnum þá barst lögreglu tilkynning frá starfsfólki Vínbarsins við Kirkjutorg aðfaranótt laugardagsins 18. maí 2013, klukkan 2.36, um að ölvuð kona sæti í bifreið sinni og gerði sig líklega til að aka af stað.

Þegar lögregla kom að var bifreiðin í bakkgír og hvít bakkljós loguðu. Hafi bifreiðinni því næst verið ekið tæpan metra aftur á bak en bifreiðin var stöðvuð þegar önnur lögreglubifreið kom á vettvang og stöðvaði aftan við hana.

Fyrir dómi kannaðist konan við að hafa verið undir áhrifum áfengis þegar hún gangsetti bifreiðina í umrætt sinn. Hún bar hins vegar að ásetningur hennar hefði ekki staðið til þess að aka bifreiðinni, heldur hefði hún gangsett hana til að halda á sér hita á meðan hún hringdi símtal til að útvega sér far heim. Hafi bifreiðin runnið aftur á bak þegar hún gangsetti hana, líklega vegna þess að hún rak sig í gírstöngina.

„Við rannsókn málsins fór engin athugun fram á bifreiðinni með það fyrir augum að sannreyna hvort frásögn ákærðu að þessu leyti gæti staðist. Þá verður ekki ráðið af framburði lögreglumannanna fjögurra, sem komu á vettvang, af hvaða orsök bifreiðin færðist til eftir að hún var gangsett. Vafa þar um ber að skýra ákærðu í hag, sbr. 108. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008,“ segir í niðurstöðu dómsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert