Skjöldólfur ekki aflífaður

Neskaupsstaður
Neskaupsstaður mbl.is/Sigurður Bogi

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Austurlands frá 13. nóvember 2013 um að aflífa skuli hundinn Skjöldólf. Nefndin leit til þess að dýraeftirlitsmaður hefði ekki sett kröfuna fram, eins og tilskilið væri.

Fjórar tilkynningar höfðu borist vegna hundsins Skjöldólfs en hann beit stúlku í fótinn, tvær konur í kálfann og svo í buxnaskálm lögreglumanns. Sökum þessa hvatti Heilbrigðiseftirlit Austurlands eiganda Skjöldólfs til að aflífa hann. Hann neitaði og fór svo að heilbrigðisnefnd Austurlands krafðist þess að hann yrði aflífaður.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að ákvörðun um aflífun sé íþyngjandi og verði að skýra heimild til hennar þröngt. „Um bit og hættu er þannig tiltekið í 11. gr. samþykktarinnar [um hundahald í Seyðisfjarðarkaupstað, á Fljótsdalshéraði, í Fjarðabyggð og í Vopnafjarðarhreppi] að hafi hundur bitið geti dýraeftirlitsmaður, í samráði við heilbrigðiseftirlit, eða tjónþoli gert kröfu um aflífun.

[...]

Í máli þessu liggur fyrir að málsmeðferð og ákvarðanataka fór fram hjá heilbrigðisnefnd. Liggur fyrir ákvörðun hennar um aflífun á grundvelli nefndrar 11. gr., en þar er dýraeftirlitsmanni, sem ráðinn er af sveitarstjórn, falið sérstakt hlutverk þegar krafa um aflífun hefur ekki verið sett fram af hálfu tjónþola. Í máli því sem hér er til meðferðar hefur dýraeftirlitsmaður ekki komið að slíkri kröfu, svo sem skýrt er skilyrt í nefndu ákvæði. Verður því að telja að nefndinni hafi ekki verið heimilt að taka ákvörðun um aflífun án kröfu samkvæmt áðurnefndri 11. gr. Þá verður ekki talið að nefndin í stað dýraeftirlitsmanns geti sett fram slíka kröfu í skjóli þess að hann starfi undir eftirliti og á ábyrgð nefndarinnar, enda honum einum ætlað það hlutverk samkvæmt afdráttarlausu orðalagi ákvæðisins."

Sökum þess komst nefndin að þeirri niðurstöðu að fella ákvörðun heilbrigðisnefndar úr gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert