Sjálfsagt að skoða málin betur

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, vill á þessari stundu ekki tjá sig um ummæli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um óuppsegjanlega verðtryggða leigusamninga sem gerðir voru í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Hann segir hins vegar sjálfsagt mál, ef vilji sé fyrir hendi, að skoða þessi mál betur. Ríkisendurskoðun, fjárlaganefnd Alþingis og fleiri opinberir aðilar eigi að hafa tök á því að fara yfir málin.

Guðlaugur Þór furðaði sig á því af hverju fréttamaður Stöðvar 2 hefði ekki spurt Steingrím J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, að því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær hvers vegna ríkisstjórn hans gerði óuppsegjanlega verðtryggða leigusamninga við Reykjavíkurborg og Embætti landlæknis.

Í kvöldfréttunum sagði Steingrímur ýmislegt benda til þess að nokkrir langtímaleigusamningar um fasteignir sem ríkissjóður gerði fyrir hrun hafi jaðrað við að vera pólitísk spilling.

Var hann þá meðal annars spurður um samninga sem ríkissjóður gerði við dótturfélög Íslenskra aðalverktaka.

Perlusamningurinn án útboðs

Guðlaugur Þór benti meðal annars á að fyrri ríkisstjórn hefði skömmu fyrir hrun gert fimmtán ára verðtryggðan óuppsegjanlegan samning við Reykjavíkurborg um leigu á Perlunni, án útboðs.

Þá hefði lægsta tilboði ekki verið tekið í húsnæði á Barónsstíg og leigugreiðslurnar hefðu jafnframt étið upp mögulegan sparnað af sameiningu Embættis landlæknis og Lýðheilsustofnunar.

Í samtali við mbl.is segist Steingrímur ekki hafa kynnt sér ummæli Guðlaugs og því geti hann ekki tjáð sig um þau.

„Aðalatriðið er það að menn læri af þessu og setji ríkið ekki í þá stöðu að það sé bundið í báða skó gagnvart löngum samningum sem það á enga útgönguleið úr, ef aðstæður breytast.

Það þurfa ekki bara að vera fjárhagslegar aðstæður, heldur geta verið faglegar áherslubreytingar, svo sem stefnubreytingar í málaflokkum sem kalla á það að ríki, sveitarfélög og opinberir aðilar hafi svigrúm til að gera breytingar á fyrirkomulagi þjónustu,“ segir Steingrímur.

Frétt mbl.is: Ekki spurt um samninga fyrri ríkisstjórnar

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert